Nói Síríus hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna óvænts piparmyntubragðs af páskaeggjum fyrirtækisins. Fjölmargir viðskiptavinir Nóa Síríus lýstu yfir vonbrigðum sínum með piparmyntubragð af páskaeggjunum sínum um helgina en svo virðist sem konfektmoli sé sökudólgurinn.
Mikil reiði er á Facebook-síðu Nóa Síríus þar sem molinn alræmdi virðist hafa smitað ansi mörg egg. Í yfirlýsingu frá Nóa Síríus kemur fram að fyrirtækið hafi ákveðið að fjarlægja allt plast og umbúðir sem máttu missa sín úr eggjunum. Var þetta gert vegna aukinnar vitundar um umhverfisábyrgð fyrirtækisins.
„Þetta var virkilega krefjandi verk og mjög viðkvæmt þar sem þurfti að stíga varlega til jarðar,“ segir í yfirlýsingunni.
Því miður er greinilegt að myntu konfektmolinn hafi í einhverjum tilfellum smitað útfrá sér og neytendur hafa haft samband við okkur um það. Myntu Pralín molarnir voru teknir úr þeim umbúðum sem þeir hafa ávallt verið í og þess vegna myndaðist smit í eggin.
Nói Síríus harmar þetta, ætlar að taka hart á málinu og vinnur nú að því að svara þeim sem lentu í því að páskaeggið bragðaðist ekki eins og það átti að bragðast. „Það er virkilega leiðinlegt að þetta hafi komið upp, sérstaklega í ljósi þess að þetta er stærsta páskavertíð Nóa Síríus frá uppafi.“