Níu óþolandi hlutir sem túristar gera á Íslandi: „Ég vil frekar að þú kúkir í garðinn hjá mér“

Auglýsing

Túristar eru upp til hópa fínasta fólk, það er enginn að halda öðru fram. Það er hins vegar eins og margir þeirra haldi að Ísland sé bara þessi litla krúttlega eyja þar sem glæpatíðni er svo lág að það þurfi engin lög. Eins og allar reglur séu bara svona leiðbeinandi. Þetta eru nokkrir hlutir sem hinn almenni túristi á það til að gera og fara virkilega í taugarnar á mér. Ef einhver túristi er að lesa þetta má viðkomandi vinsamlegast bæta úr þessu hið snarasta.

Kúka út um allt

Fréttir af bændum að reka kúkandi túrista af túnum hjá sér eru allt of algengar. Í stóra samhenginu er þetta mjög fyndið og auðvitað gerast slysin, en ég ímynda mér að fátt sé meira pirrandi en að vakna við einhvern að drulla í garðinn þinn. Eins og það sé ekki nógu ógeðslegt að stíga í hundaskít?

Keyra utan vega

No brainer en þetta væri asnalegur listi ef þetta væri ekki á honum. Held að enginn geti verið ósammála þessu

Sjá einnig: Rússnesk samfélagsmiðlastjarna greiðir 450 þúsund króna sekt fyrir utanvegaaksturinn í Mývatnssveit

Stoppa á miðjum vegi til að skoða eitthvað

Auglýsing

Eina atriðið hérna sem er beinlínis hættulegt, en líklega eitthvað sem flestir kannast við. Túristar hika ekki við að stoppa og taka mynd af því þeir sjá eitthvað krækiberjalyng 200 metra frá veginum. Þeim þykir alls ekki taka því að keyra út í kant, því líkurnar á því að það komi annar bíll á þessari litlu krúttlegu eyju finnst þeim hljóti að vera stjarnfræðilega litlar.

Kunna ekki að fara í sund

Það eru svona 30 skilti í Laugardalslaug sem útlista hvenær, hvað og hvernig þú átt að þrífa þig fyrir og eftir sund. Það er engin leið að gera skilaboðin skýrari. En þeir rétt pota hausnum undir bununa og fara svo valhoppandi beinustu leið í laugina, nýbúnir að kúka í garðinn hjá þér.

Kvarta yfir veðrinu

Það var enginn túristi sendur út í frímínútur í -10 stiga frosti og roki, í blautum stígvélum. Það ætti að láta þá skrifa undir eitthvað plagg í Leifsstöð sem bannar þeim að kvarta yfir veðrinu.

Kunna ekki á umferðarljós

Það er fátt aumkunarverðara en að sjá fólk bruna yfir á gulu og stoppa svo aftan við línuna hinum megin af því það er komið rautt ljós þar. Þetta er kannski ekki óþolandi, en mikið er það lúðalegt.

Bauna yfir mann á eigin tungumáli

Þetta er kannski meira bundið við túrista sem koma af skemmtiferðaskipum og vita varla hvar þeir eru, en það eru ótrúlega margir sem hika ekki við að bauna út úr sér heilu hljóðbókunum á þýsku/frönsku/ítölsku og fleiri tungumálum. Það er ekkert að því að kunna ekki ensku, en reyndu að minnsta kosti að tala hægt og skýrt svo þú endir ekki á því að þurfa að gera þarfir þínar beint á bryggjuna því þú finnur ekki klósett.

Segja manni að það búi jafn margir í hverfinu þeirra og á Íslandi

Þetta er mjög þreytt. Við Íslendingar hlöðum samt óspart í þessa „sturluðu staðreynd“ þegar við erum í útlöndum þannig að kannski ætti þetta að fara minna í taugarnar á mér.

Reyna að segja Eyjafjallajökull

Þú getur það ekki og það er ekki fyndið að þú getir það ekki. Ég vil frekar að þú kúkir í garðinn minn.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram