Ótrúleg færsla Ragnars Önundarsonar um Áslaugu Örnu þykir sýna af hverju konur krefjast breytinga

Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur birtir mynd af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld í tengslum við umfjöllun um kynferðislega áreitni sem konur í stjórnmálum upplifa. Skilaboðin sem Ragnar lætur fylgja með myndinni þykja kristalla hluta vandans sem konur í stjórnmálum standa frammi fyrir.

Um 600 konur úr öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi hafa skráð sig í lokaðan hóp á Facebook þar sem þær ræða kynbundið ofbeldi í íslenskum stjórnmálum. Áslaug Arna er ein þeirra sem steig fram í dag. Konurnar hafa deilt yfir 100 sögum um valdbeitingu, kynbundið ofbeldi eða áreitni sem þær hafa upplifað í starfi sínu í stjórnmálum.

Sjá einnig: Konur í stjórnmálum upplifa þukl, kynferðislegar athugasemdir og skilaboð á kvöldin frá karlkyns kollegum

Konurnar hafa sent frá sér áskorun þar sem þess er krafist að karlar taki ábyrgð og að stjórnmálaflokkarnir taki af festu á málinu. „Þess er krafist að karlmenn innan flokkanna og flokkarnir sjálfir setji sér viðbragðsreglur og lofi konum að þær þurfi ekki að þegja og að þær muni fá stuðning,“ segir í yfirlýsingu frá hópnum.

Ragnar birti myndina í kjölfarið á umræðu um málið í Kastljósi. „Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum,“ segir hann við myndina.

Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem „prófílmynd“ á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.

Myndbirtingin hefur vakið hörð viðbrögð og fjölmargar konur og karlar hafa dreift færslunni og tjáð sig um hana. Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og ein af þeim konum sem birtu áskorun til stjórnmálaflokkanna í dag, deilir færslu Ragnars. „Stundum kemur aðstoð úr óvæntri átt. Einmitt vegna svona viðhorfa þurfum við byltingu!“ segir hún.

Áslaug Arna reynir að fá Ragnar til útskýra hvað hann meinar með ummælum sínum, án árangurs, í athugasemdakerfinu undir myndinni. Hann segir þar að myndin sé „umhugsunarverð“. Áslaug Arna svarar honum í kaldhæðni og óskar eftir að Ragnar skrif reglur um útlit stjórnmálakvenna. „Svona almennt – klæðaburður, pósur og hárgreiðsla til dæmis,“ segir hún og Ragnar segist vilja hvetja hana til að hugsa um þá ímynd sem hún vill hafa.

„Ég á ekki í neinum vandræðum með mig. Þú virðist vilja að ég sé öðruvísi en ég er, 26 ára kona á þingi. Viltu ekki bara segja hreint út það sem þú meinar, í stað þess að koma með hálfkveðnvar vísur,“ svarar Áslaug Arna.

Hér má sjá færslu Ragnars

https://www.facebook.com/ragnar.onundarson/posts/900782186713696

Á Twitter er fólk að taka við sér en Svanhildur Hólm deildi færslu með kassamerkinu #ekkiveraragnar í kvöld.

 

Auglýsing

læk

Instagram