Ráðamenn í Rajkot ráðast gegn PUBG

Tölvuleikurinn PlayerUnknown‘s Battlegrounds, betur þekktur sem PUBG, hefur verið bannaður í indversku borginni Rajkot. Bannið er í gildi frá 9. mars til 30. apríl og yfirvöld lofa að „gripið verði til aðgerða“ gegn þeim sem spila leikinn á því tímabili. Borgaryfirvöld hafa líka óskað eftir því að ríkisstjórnin banni leikinn. Indverski miðillinn Financial Express segir frá.

PUBG hefur verið umdeildur á Indlandi. Sumir vilja meina að hann sé ávanabindandi og skaðlegur og foreldrar hafa kvartað undan honum til yfirvalda. Kallað hefur verið eftir því að hann verði bannaður alfarið. Leikurinn er ekki ólöglegur annars staðar og hann er ekki umdeildur á Vesturlöndum.

Borgaryfirvöld í Rajkot, sem er fjórða stærsta borgin í Gujarat-fylki og hefur meira en milljón íbúa, ákváðu að grípa til sinna ráða og banna leikinn alfarið í borginni þar til í lok apríl. Það fylgir ekki sögunni hvers vegna bannið er tímabundið.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Rajkot kemur fram að hver sem er geti sent inn kvörtun og látið vita ef einhver er að spila PUBG og að ef einhver verði fundinn sekur um að spila leikinn verði tekið harkalega á því. Refsingin verður allt upp í mánaðarlangt fangelsi eða sekt sem samsvarar um 350 íslenskum krónum, eða bæði.

Í yfirlýsingunni er einnig fullyrt að PUBG hafi neikvæð áhrif á huga þeirra sem spila hann og að foreldrar hafi áhyggjur af því að börnin þeirra spili leikinn löngum stundum, sem komi niður á frammistöðu þeirra í prófum.

PUBG er skotleikur sem er spilaður á netinu þar sem allt upp í hundrað leikmenn berjast sín á milli um að vera sá síðasti á lífi. Leikurinn er svokallaður „Battle Royale“ leikur, rétt eins og Fortnite, en það er ný tegund tölvuleikja sem hefur slegið í gegn á undanförnum árum.

Auglýsing

læk

Instagram