Auglýsing

Sagan endalausa í Grindavík: Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi

Aflögunarmælingar sýna að land heldur áfram að síga í Svartsengi. Þegar kvikuhlaupið byrjaði í aðdraganda eldgossins þann 29. maí seig land í Svartsengi um 15 cm, en hefur nú sigið um 4-6 cm til viðbótar á undanförnum dögum. Það að land haldi áfram að síga þetta mörgum dögum eftir upphaf goss er ólíkt því sem hefur áður sést í eldgosunum á Sundhnúksgígaröðinni.

Í fyrri kvikuhlaupum/eldgosum, hefur mest allt sig samfara þeim einungis mælst á allra fyrstu dögum en strax í kjölfarið farið að mælast landris. Landsigið bendir til þess að á þessu stigi flæði meira magn kviku úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, heldur en að flæði inn í það af dýpi.

Aflögunarmælingar á Svartsengissvæðinu og þróun eldgossins næstu daga munu gefa skýrari mynd af framhaldi kvikusöfnunar undir Svartsengi. Líkanreikningar og mat á hraunflæði í gosinu benda hins vegar til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður.

8 sólarhringa eldgos

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í átta sólarhringa. Eftir nokkuð kröftuga byrjun dróst virknin saman í þrjá gíga sem voru virkir um síðastliðna helgi. Breyting varð á virkninni í nótt og svo virðist sem einungis einn gígur sé virkur. (Sjá staðsetningu gígsins á  hættumatskorti )

Gígurinn sem ennþá er virkur er staðsettur rétt við þann gíg sem gaus lengst úr í eldgosinu sem hófst 16. mars og endaði 9. maí.

Hraunstraumar úr þeim gíg sem er virkur eru til norðvesturs að Sýlingarfelli og meðfram því að norðan. Einnig eru virkir hraunstraumar til suðurs í átt að Hagafelli. Gera má ráð fyrir að dregið hafi úr hraunstraumi til suðaustur í átt að Fiskidalsfjalli eftir að virknin færðist yfir í einn gíg.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing