Sigmundur tekur upp hanskann fyrir Guðna: Skiljanlegt að forsetinn vilji banna ananas á pizzur

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hafa blásið lífi í stóra ananasmálið, sem klauf heimsbyggðina í herðar niður í febrúar.

Eins og fjölmiðlar um allan heim greindu frá á dögunum þá lýsti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, yfir að hann myndi banna ananas á pizzur ef hann gæti það. Vísir fjallaði um ferð Guðna til Akureyrar en hann sat fyrir svörum í Menntaskólanum á Akureyri þar sem hann varpaði þessari bombu. Guðni birti síðar yfirlýsingu þar sem hann dró ummæli sín til baka.

RÚV greinir í dag frá tísti Justins Trudeau á Twitter, þar sem hann lýsir yfir stuðningi við ananas á pizzu. Af því tilefni ákvað Sigmundur Davíð að tjá sig um málið en á Facebook-síðu sinni segist hann lengi hafa haft sterkar skoðanir á málefninu.

„En eftir að forsætisráðherra Kanada tók málið upp að nýju og reyndist vera á algjörum villigötum get ég ekki látið hjá líða að tjá mig: Ananas á ekki heima á pizzu,“ segir Sigmundur Davíð afdráttarlaus.

Frá barnæsku hef ég verið hrifinn af ananas og þótti ananasdjús bestur djúsa. En ananas á alls ekki heima á pizzu, ekki frekar en sýrður rjómi á sushi.

Sigmundur birti svo ítarlegan lista þar sem hann rökstyður af hverju ananas á ekki heima á pizzum. Hann segir meðal annars að ávextir sem notaðir séu til að framleiða safa eigi ekki heima á pizzu, að súrsæta ananasbragðið renni ekki saman við annað bragð á pizzunni og virki því eins og truflandi aðskotaefni og að hitastig ananasbitanna sé iðulega á skjön við restina af pizzunni.

„Ananasinn hitnar hraðar og meira en önnur hráefni og getur í fyrstu valdið brunasárum. Svo kólnar ananasinn og verður kaldari en restin af pizzunni,“ segir hann.

Þá segir Sigmundur að ananasinn skilji eftir sig safa og því dugi ekki að tína bitana af pizzunni. „Á heimilinu ríkir ekki einhugur um ananasmálið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til að fara yfir þessi atriði,“ segir hann.

„Það hefur verið reynt að leysa málið með því að panta bara ananas á helminginn en það er ekki fullkomin lausn því safinn lekur yfir á hreina helminginn og skemmir hann að hluta.“

Sigmundur segir því að áhugi Guðna og annarra á að banna ananas á pizzum sé skiljanlegur. „Það ætti alla vega við um bann við ananas á stórum pizzum. Hugsanleg málamiðlun væri sú að fólki yrði leyft að panta sér einstaklingspizzur með ananas ef þær yrðu afgreiddar á afmörkuðum svæðum á pizzustöðum,“ segir hann og endar á Framsóknarlegum nótum:

„Svo væri náttúrulega hægt að leysa málið með því að borða bara íslenskan mat.“

Færslu Sigmundar má sjá hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram