Skora á ráðamenn og lögreglu að mæta í Druslugönguna: „Innan ykkar raða eru enn þá einstaklingar sem bregðast okkur”

Skipuleggjendur Druslugöngunnar hafa skorað á ráðamenn og lögreglu að mæta í gönguna í dag og sýna málstaðnum stuðning.

Hin árlega Drusluganga fer fram víða um land í dag en stærsta gangan verður sennilega sú í Reykjavík líkt og undanfarin ár. Lagt verður af stað frá Hallgrímskirkju klukkan tvö í dag.

Á Twitter síðu Druslugöngunnar í gær birtust boðskort til alþingismanna, ráðherra og lögreglu.

Í boðskortum til ráðherra segir að skipuleggjendum hefur þótt vanta upp á skilning ráðamanna innan þessa málaflokks. Ábyrgðin sé mikil. Þá eru alþingismenn allir hvattir til þess að sýna þolendum stuðning og nýta vald sitt til þess að koma málefnum þolenda í gegn.

Í boðskorti lögreglunnar segir að þrátt fyrir gott starf séu enn einstaklingar innan stéttarinnar sem bregðast þolendum kynferðisofbeldis og misbeita valdi sínu. Lögreglufólk er hvatt til þess að taka afstöðu gegn ofbeldi og með þolendum.

Gangan í Reykjavík hefst eins og áður segir klukkan tvö við Hallgrímskirkju. Gengið verður niður á Austurvöll, þar sem verða ræðuhöld og tónlistaratriði. Sykur, GDRN og DJ Dóra Júlía sjá um tónlistaratriðin.

Auglýsing

læk

Instagram