today-is-a-good-day

Snapparinn Enski pirraður og íhugar að hætta að snappa: „Þessi uppfærsla er ömurleg“

Snapparinn vinsæli Viðar Skjóldal eða Enski (enskiboltinn) eins og hann kallar sig er afar ósáttur við þær breytingar sem gerðar hafa verið á Snapchat. Hann segir að áhorfið hafi hreinlega hrunið fyrst eftir breytinguna og íhugar það nú alvarlega að segja skilið við Snapchat og færa sig yfir á Instagram.

Sjá einnig: Enski lætur þá sem drulla yfir sig á Twitter heyra það: „99 prósent fólks elskar mig“

Tilkynnt var um breytinguna á miðlinum í nóvember eftir að notendum fór fækkandi og tekjurnar fóru að minnka. Breytingarnar fela meðal annars í sér að svokallaðir áhrifavaldar eða „Snapparar“ eins og Enski eru aðskildir frá fólki sem notendur eiga í daglegum samskiptum við.

Breytingin virðist umdeild á meðal áhrifavalda en Tanja Ýr Ástþórsdóttir, eigandi markaðsstofunnar Eylenda, sagðist í samtali við Nútímann fyrir skemmstu ekki hafa ekki áhyggjur af stöðunni.

Viðar segir breytingarnar valda því að fólk hreinlega finni hann ekki í appinu. „Ég tók eftir þessu fyrir helgi. Ég er vanur að vera með milli fimm og sjö þúsund áhorf á hvert snapp og það minnkaði strax um helming. Það eina sem getur skýrt þetta hrun er þessi breyting,“ segir Viðar í samtali við Nútímann.

Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem er ánægður með þessa helvítis breytingu.

Hann segir að áhorfið hafi aðeins verið að rísa aftur eftir dívuna fyrir helgi. „Þetta hefur aðeins verið að lagast, ætli fólk sé ekki að læra á þessa uppfærslu. Það er samt nokkuð ljóst að þessi uppfærsla er ömurleg,“ segir Viðar.

Viðar segir að þegar kemur að því að markaðssetja sig og fá tekjur af miðlinum snúist allt um áhorfstölur. „Fyrir okkur sem vinnum við það að snappa snýst auðvitað allt um að vera með gott áhorf,“ segir Viðar sem hefur áhyggjur af því að breytingin muni skemma miðilinn.

Þrátt fyrir þetta er Viðar staðráðinn í því að halda áfram. „Ég ætla nú að gefa Snapchat smá séns. Annars er ég að skoða það alvarlega að færa mig yfir á Instagram. Ef mínir traustu fylgjendur eru tilbúnir að fylgja mér þangað er það eitthvað sem ég mun skoða. Ég þarf bara að læra á það betur,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram