Sólrún Diego ætlar ekki að kjósa Kúst og fæjó þrátt fyrir að lagið fjalli um þrif

Snapchat-stjarnan Sólrún Diego (solrundiego) ætlar ekki að kjósa Kúst og fæjó, framlag Heimilistóna í Söngvakeppni Sjónvarpsins á morgun. Ákveðinn skellur enda fjallar lagið um þrif og húsráð en Sólrún er landsþekkt fyrir húsráð sín og gaf út bókina Heima fyrir síðustu jól.

Sjá einnig: Heimilistónar veita stórkostleg húsráð: „Settu bara majónesdollu í hausinn á henni“

Þegar rýnt er í texta lagsins Kúst og fæjó sjá fylgjendur Sólrúnar að þarna gæti allt eins verið á ferðinni handrit af Snapchat-sögu hennar:

Mig vantar kúst og fæjó.
Verð að pússa öll mín gólf.
Í kvöld er saumó.
Sitjum saman fram til tólf.

Þrátt fyrir þessa tengingu hefur Sólrún ákveðið að kjósa annað lag í ár. Sólrún, sem fylgist vel með keppninni, ætlar að kjósa Aron Hannes og lagið Gold digger. „Ég held algjörlega með Aroni Hannesi á morgun og hann fær mitt atkvæði,“ segir Sólrún í samtali við Nútímann.

Ég hélt með honum í fyrra líka en lagið hjá honum er betra í ár.

Þó hún styðji Aron Hannes í ár þá hefur hún mjög gaman að stelpunum í Heimilistónum. „Ég er mjög ánægð með þær og þær gefa þessari keppni mikið líf,“ segir Sólrún sem bíður spennt eftir keppninni annað kvöld.

Sigurlag Söngvakeppninnar annað kvöld verður framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin verður í Lissabon í Portúgal dagana 8., 10. og 12. maí.

Sólrún er ánægð með keppnina í ár. „Það eru ótrúlega mörg góð lög að taka þátt þetta árið og það er mjög gaman að fylgjast með keppninni á þessum dimmu mánuðum,“ segir hún að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram