„Það á að gera menn persónulega ábyrga fyrir þessu rugli“

Eldur kom upp í atvinnuhúsnæði við Stangarhyl 3 í morgun en maður á fertugsaldri liggur þungt haldin á sjúkrahúsi. Samkvæmt deildarstjóra á aðgerðarsviði slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var húsnæðið að öllum líkindum ekki samþykkt til búsetu.

„Mér finnst mikilvægt að þeir sem bera ábyrgð á atvinnuhúsnæði þar sem fólk býr, að það sé hugað að öryggismálum. Að það sé tryggt eins og kostur er að húsnæðið sé eins öruggt,“ segir Vernharð Guðnason, deildarstjóri á aðgerðarsviði slökkviliðs höfuðbrgarsvæðisins í samtali við Vísi.

„…láta þá borga himinháar sektir og jafnvel sitja inni“

Nútíminn hafði samband við slökkviliðsmann sem þekkir vel til þessara mála en hann vildi ekki koma fram undir nafni þar sem hann hefur sterkar skoðanir á atvinnuhúsnæðum sem eru notuð ólöglega undir búsetu. Hann er ómyrkur í máli þegar rætt er um eigendur þessara atvinnuhúsnæða.

„Það á að gera menn persónulega ábyrga fyrir þessu rugli. Þegar við förum að sækja menn til saka sem bera ábyrgð á þessu og láta þá borga himinháar sektir og jafnvel sitja inni að þá held ég að við förum að sjá einhverjar breytingar á þessum málum til hins betra. Það eru ekki margir sem hafa þurft að gera það í gegnum tíðina, þá meina ég að bera ábyrgð á þessu. Í fljótu bragði man ég eftir einu máli,“ segir hinn ónafngreindi slökkviliðsmaður í samtali við Nútímann.

Hversu margir þurfa að deyja?

Málið sem hann minnist er dómur sem féll fyrir tveimur árum síðan en þá dæmdi héraðsdómur Reykjavíkur eiganda starfsmannaleigu til fimm mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Hann var ákærður fyrir að stefna starfsmönnum sínum í hættu með því að útbúa fyrir þá búseturými í iðnaðarhúsnæði sem hann leigði. Aðeins er rúmur mánuður síðan karlmaður lést í bruna í iðnaðarhúsnæði við Funahöfða 7. Þessum málum virðist bara vera að fjölga og því spurning hversu mörg mannslíf það þarf áður en stjórnvöld grípa til aðgerða.

„Það er bara ekki nóg að dæma menn í nokkurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá ertu bara að slá á puttana á þessum mönnum og það hefur engan fælingarmátt.“

Nútíminn hefur sent fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið og spurt hvort það sé á dagskránni að taka þessi mál fastari tökum en hefur verið gert í gegnum tíðina. Beðið er svara.

Auglýsing

læk

Instagram