Þórhildur hvetur fólk til að þekkja þögul einkenni drukknunar: „Það getur bókstaflega bjargað mannslífi einn daginn“

Þórhildur Ólafsdóttir var stödd með fjölskyldunni á ylströndinni í Nauthólsvík fyrr í vikunni þegar hún bjargaði óvænt mannslífi. Hún segir frá atvikinu í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún vekur athygli á þöglum einkennum drukknunnar og hversu mikilvægt sé að þekkja þau.

Þórhildur segist hafa rekist á grein, sem einhver vina hennar á Facebook deildi fyrir nokkru, sem hafði mikil áhrif á hana. Greinin fjallaði um hver raunveruleg einkenni drukknunar séu og hefur verið henni ofarlega í huga þegar hún er í sundi eða nálægt vatni sérstaklega þegar sonur hennar er með í för.

Þórhildur var því með athyglina á réttum stað þegar fjölskyldan fór í Nauthólsvíkina fyrr í vikunni. Hún segir frá því að maðurinn hennar hafi farið með strákinn þeirra og tvær systurdætur í sjóinn meðan hún beið í sjópottinum. Hún hafi farið að spá í drukknunareinkennunum meðan hún sat í pottinum og tók eftir því að strandvörðurinn vappaði um niðurlútur og annars hugar að henni fannst.

„Mér þótti það einkennilegt því slysin spyrja víst ekki um stað né stund,“ segir Þórhildur og ákvað á þeim tímapunkti að líta yfir sjósvæðið sem var fullt af fólki til að athuga hvort einhver væri með þessi drukknunareinkenni.

„Það liðu ekki nema 2-3 mínútur þar til ein stúlka náði athygli minni. Hún var á svæðinu fyrir utan bandið með baujunum og flappaði höndunum í vatnið og var með höfuðið rétt fyrir ofan vatnsyfirborðið. Það var fullt af fólki í kringum hana og í fyrstu var ég ekki viss hvort hún væri bara að busla eitthvað með vinum sínum eða hvort ég væri bara paranojuð. Ég fylgdist með henni í smá stund og ákvað síðan að ég væri þá bara þessi paranojaða týpa sem yrði vandræðaleg eftir á ef það væri síðan ekkert að henni.“

Þórhildur rauk upp úr pottinum og kallaði í Kristján, manninn sinn, sem synti að stúlkunni rétt á því andartaki sem hún náði að kreista upp kæft óp áður en hún fór alveg á kaf.

„Ég sá strax að þetta hafði verið rétt hjá mér og hljóp út í og tók á móti henni. Stúlkan náði varla andanum og hóstaði og skalf.“

Nokkrar mínútur liðu þar til stúlkan gat komið upp orði en hún var í miklu sjokki að sögn Þórhildar. Kom þá í ljós að konan var ekki íslensk og var þarna ein og ósynd en hún hafði verið á svæði þar sem hún náði til botns en síðan hafi vatnið dýpkað skyndilega. Þegar hún hafi ekki náð til botns hafi gripið um hana ofsahræsla og hún reynt að bjarga sér með tilheyrandi einkennum.

„Það er búið að sitja í mér í allan dag hversu heppinn þessi stúlka var að ég hafði verið þarna í pottinum, á nákvæmlega þessum tímapunkti, að hugsa út í nákvæmlega þessi einkenni, og að Kristján hefði heyrt í mér strax. Nokkrum mínútum seinna hefði þetta geta farið mun verr.“

Þórhildur hvetur að lokum alla til þess að kynna sér einkenni drukknunar og vera vakandi fyrir þeim í hvert skipti sem farið er í sund, „því það getur bókstaflega bjargað mannslífi einn daginn.“

Myndband sem fylgdi greininni sem Þórhildur deildi sýnir einkenni drukknunar en meðal þess sem er athugavert er ef einstaklingur hreyfist aðeins upp og niður en ekki úr stað og lyftir höndum ítrekað upp, en það getur tekið örfáar sekúndur fyrir manneskju að sökkva í kaf.

Auglýsing

læk

Instagram