Tólfan og Fílharmónían í skyrauglýsingu í Rússlandi

Söngsveitin Fílharmónían og Tólfan, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins í fótbolta, leika í nýrri auglýsingu fyrir Ísey Skyr sem er sýnd í Rússlandi þessa dagana og hafa nú þegar um hálf milljón manns horft á hana. Skyrið fór á markað í Rússlandi nýlega og eru vörurnar væntanlegar í búðir þar í landi um mánaðarmótin. Vísir greinir frá þessu. Sjáðu auglýsinguna hér að neðan.

Í auglýsingunni er hópurinn klæddur í landsliðstreyjur, syngur lag og tekur að sjálfsögðu HÚH-ið í endann.

Í fréttatilkynningu frá Mjólkursamsölunni kemur fram að Ísey Skyr sé í eigu Mjólkursamsölunnar en að framleiðslu skyrsins í Rússlandi stendur rússenska félagið IcePro LLC sem er í meirihlutaeigu Kaupfélags Skagfirðinga. Markmið IcePro er að ná fimm þúsund tonna ársframleiðslu á rússlandsmarkaði innan þriggja ára, til samanburðar eru hér á landi framleidd árlega um þrjú þúsund tonn af skyri.

Mjólkursamsalan framleiddi 650 dósir af skyri fyrir íslenska landsliðið sem biðu þeirra þegar þeir komu á hótelið sitt í Rússlandi, þær dósir kláruðust fljótt og á liðið inni pöntun upp á 850 dósir til viðbótar.

Ísey Skyr tilkynnti í gær á Facebook-síðu sinni að það er nú hægt að fá skyrið í Rússlandi.

Auglýsing

læk

Instagram