Trump gaf fjölmiðlum rautt spjald þegar hann fundaði með Infantino

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fundaði með Gianni Infantino, forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA í gær vegna HM sem fer fram í Bandaríkjunum Mexíkó og Kanada árið 2026. Trump var í miklu stuði á fundinum og sýndi meðal annars fjölmiðlum rauða spjaldið.

Infantino mætti á fundinn með gjafir fyrir Trump og afhenti honum bolta, treyju og gul og rauð spjöld ásamt öðru. Infantino útskýrði fyrir Trump að í fótbolta væru dómarar með gul og rauð spjöld til að sýna leikmönnum.

„Gula spjaldið er aðvörun en ef þú vilt reka einhvern af vellinum þá sýnir þú viðkomandi rauða spjaldið,” sagði Infantino og gaf í skyn að Trump gæti notað það á fjölmiðla.

„Það er frábært, mér líst vel á það,” sagði Trump áður en hann gaf viðstöddum fjölmiðlum rauða spjaldið.

Trump sagði þá að fótbolti væri sú íþrótt í heiminum sem væri að stækka hvað hraðast. Þegar hann talar um heiminn á hann væntanlega við Bandaríkin en fótbolti hefur verið stærsta og vinsælasta íþrótt í heiminum í talsverðan tíma. Undanfarið hafa vinsældir fótboltans í Bandaríkjunum þó aukist til muna.

Auglýsing

læk

Instagram