UN Women og iglo+indi munu taka ábendingu Töru Margrétar til greina fyrir næstu herferð: „Markmiðið var alls ekki að útiloka neinn”

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, hefur gagnrýnt nýjar peysur frá fatamerkinu iglo+indi sem framleiddar eru í samstarfi við UN Women á Íslandi.

Tara gagnrýnir það að peysan fáist ekki í stærri stærð en Large eða Stór. Markmið iglo+indi með samstarfinu er að skapa uppbyggilega umræðu um starf UN Women á Íslandi. Ágóði peysunnar rennur til neyðarathvarfs UN Women í Balukhali flóttamannabúðunum í Bangladess.

Á peysunni er textinn empwr sem er stytting á enska orðinu Empower og þýðir valdefling. Tara segir að það sé þversögn í skilaboðum peysunnar og stærðunum sem hún býðst í.

„Ég er hætt að vera meðvirk með fatamerkjum sem útiloka stóran hóp fólks, óháð hugsuninni á bak við fatnaðinn. Gerið bara betur,” skrifar hún á Facebook.

Hún bendir á að það sé ekki einu sinni gott út frá viðskiptalegu sjónarmiði að sleppa því að bjóða upp á stærri peysur þar sem að mun fleiri muni kaupa XL peysur heldur en XS.

Facebook-notendur hafa tekið undir með Töru. Ein skrifar við færslu hennar að þetta snúist allt um að halda vörumerkinu UN Women töff. Ef allir geti styrkt málstaðinn, meira að segja feitt fólk, þá hætti málstaðurinn að vera töff.

Í svari UN Women og iglo+indi við fyrirspurn Nútímans segir að markmiðið hafi alls ekki verið að útiloka neinn. Markmið herferðarinnar hafi vrið að sýna fram á mikilvægi valdeflingar kvenna og stúlkna með áherslu á Róhingjakonur á flótta.

„Þetta er góð ábending hjá Töru Margréti sem við tökum fyllilega til greina og munum endurskoða fyrir næstu herferð.”

Auglýsing

læk

Instagram