„Við erum búin að ríkisvæða stjórnmálaflokkana með himinháum framlögum“

Diljá Mist Einarsdóttir er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Hún hefur nú lagt fram frumvarp sem mælir fyrir um lækkun á styrkjum hins opinbera til stjórnmálaflokka. Það telur Diljá að muni miða að því að auka sjálfstæði þeirra og óhæði gagnvart hinu opinbera.

„Í rauninni erum við búin að ríkisvæða stjórnmálaflokkana með himinháum framlögum úr ríkissjóði. Ekki bara stjórnmálaflokka sem njóta velgengni í kosningum heldur stjórnmálaflokka sem jafnvel tapa í kosningum,“ segir Diljá Mist sem vill að þröskuldurinn fyrir fjárframlög úr ríkissjóði séu hækkaðar úr 2.5% kosningu í Alþingiskosningum og upp í 4%.

„Þú þarft bara að ná 2.5% í kosningum til þess að fá framlög.“

Diljá nefndi dæmi um Sósíalistaflokkinn. Hann komst ekki inn á þing og fékk í kring um 4%. Flokkurinn fékk engu að síður 120 milljónir króna úr ríkissjóði.

„Já. Ég var þeirrar skoðunar að skera algjörlega á fjárframlögin. Síðan breytti ég aðeins um skoðun þegar ég fór að skoða framkvæmdina í kringum okkur – þetta tíðkast í öllum löndum sem við berum okkur saman við. Ég skil alveg sjónarmiðin. Stjórnmálaflokkar eru vettvangur lýðræðislegrar umræðu, hornsteinn lýðræðis og svo framvegis. En þeir eru það ekki ef þeir eru bara gjörsamlega á ríkisspenanum,“ segir Diljá Mist.

Frosti spyr hvort þetta sé ein skýring á lélegu gengi Sjálfstæðisflokksins að undanförnu – að hann sé orðinn of ríkisvæddur.

„Tvímælalaust,“ segir Diljá Mist og bætir við að það sé svo notalegt í öruggum faðmi ríkisins.

Engin nafnleynd og allt uppi á borðum

Þá bendir Frosti á að lögin sem nú eru í gildi og snúa að starfsemi stjórnmálasamtaka hafi verið keyrð í gegnum þingið til þess að beisla þetta tak sem fyrirtækin í landinu hafi haft á stjórnmálaflokkum – þá sérstaklega fyrir hrun þegar sumir flokkar fengu háa styrki frá fyrirtækjum.

„Það er góð breyting sem var gerð með þessum lögum – annarsvegar var kveðið á með þessi ríkisframlög og hinsvegar takmörk á frjálsum framlögum. Bæði varðandi fjárhæð og síðan varðandi bann við nafnleynd. Ég er ekki að leggja til breytingu á því. Á móti því að lækka ríkisstyrkina að þá er ég að leggja til örlitla hækkun á frjálsum framlögum,“ segir Diljá Mist en Frosti bendir þá á að gegnsæið sé miklu heilbrigðara nú en áður.

„Það er heilbrigðara, þrátt fyrir að fyrirtæki styrki stjórnmálaflokka að þá sé það uppi á borðum og að fyrirtækin styðji við þá stjórnmálaflokka sem þeir telja að sinni hagsmunum sínum best og það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Frosti í þessu áhugaverða viðtali við þingkonu Sjálfstæðisflokksins, Diljá Mist Einarsdóttur.

Þú getur horft og hlustað á allt viðtalið á hlaðvarpsveitunni Brotkast.is – ef þú vilt lesa umrætt frumvarp að þá getur þú gert það með því að ýta hér!

Auglýsing

læk

Instagram