Vilja að Ísland verði 20. fylki Noregs

Fjörugar umræður hafa skapast í hópi á Facebook sem kallast Ísland – 20. fylki Noregs. Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson stofnaði hópinn sem stækkar stöðugt og telur nú hátt í 1.500 manns. Í lýsingunni á hópnum, sem Gunnar kallar Fylkisflokkinn, segir:

Fylkisflokkurinn vinnur að endursameiningu Íslands og Noregs með því að Ísland verði 20. fylki Noregs, íslenska verði eitt af ríkismálum Noregs, norska ríkinu beri samkvæmt stjórnarskrá að vernda og efla íslenska menningu og að Íslendingar njóti allra réttinda norskra borgara.
Gunnar Smári færir ýmis rök fyrir því að Ísland verði fylki í Noregi, meðal annars betra fótboltalið, milljarðasparnaður og betra umhverfi fyrir listamenn. Þá hafa Norðmenn ávarpað hópinn og eru ýmist með hugmyndinni eða á móti. Norðmaðurinn Lars Ydse telur til dæmis að ávinningurinn yrði bara Íslendinga.
Á Facebook-síðu sinni veltir Gunnar Smári fyrir sér hvað hefði getað orðið:
Ég er að móta samræðurök fyrir fólk í Fylkisflokknum (stefnuskráin er að Ísland verði 20. fylki Noregs). Ein hugmyndin er að hefja samtöl við fólk í gamla Sjálfstæðisflokknum að þessari vangaveltu: Ímyndið ykkur hvaða áhrif Davíð Oddsson hefði haft á veröldina ef hann hefði farið úr stól borgarstjóra Reykjavíkur (fimmta stærsta borg Noregs; þriðja stærsta ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinast) á Stórþingið, þaðan í ríkisstjórn og í stól forsætisráðherra Noregs? Og jú, síðan í norska seðlabankann og loks sem ritstjóri Aftenposten?
Auglýsing

læk

Instagram