Vill breytingu á reglum um akstur á hringtorgum

Í nýju umferðarlagafrumvarpi stendur til að forgangur þeirra sem aka á innri hring hringtorga verði lögfastur. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, telur að skynsamlegra væri að ökumenn á ytri hring fái forgang, í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt frumvarpinu munu ökumenn á innri hring á tveggja akreina hringtorgi fá forgang fram yfir þá sem aka á ytri hring. Hingað til hefur þetta tíðkast á Íslandi en einungis sem óskráð regla. Runólfur segir þessi áform sýna skort á víðsýni stjórnvalda.

Athugasemdir bárust við þessa grein frumarpsins en í síðari frumvarpsdrögum var ákveðið að halda í venjuna í ljósi þess hve rótgróin hún sé.

Runólfur segir við Fréttablaðið að það sé ekki gott að fara eftir séríslenskri reglu og frekar ætti að fylgja fordæmum annarra þjóða. Hann segir að slys hafi orðið hér á landi vegna þess að erlendir ökumenn átti sig ekki á þessum séríslensku reglum.

Auglýsing

læk

Instagram