Hljómsveitin Ég kemur saman á ný og heldur sérstaka tónleika í Bæjarbíó, Hafnarfirði þann 30. október 2025, til heiðurs leiðtoga, söngvara, laga- og textahöfundi sveitarinnar, Róberti Erni Hjálmtýssyni sem féll óvænt og skyndilega frá í júní 20224.
Ari Eldjárn grínisti er einn þeirra fjölmörgu gestasöngvara sem mun troða upp með sveitinni af þessu tilefni.
„Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera varatrommari hljómsveitarinnar Ég á sínum tíma,” segir Ari, og bætir við af sinni alkunnu hógværð að Róbert hafi stundum hóað í hann þegar það sárvantaði trommar fyrir gigg. „Ég á margar yndislegar minningar af þeim stórkostlega manni og hef alltaf elskað þessa hljómsveit og er virkilega kátur og glaður með að ég fái að stíga á stokk og syngja með þeim á minningatónleikunum um Róbert sem verða í Bæjarbíó þann 30. október.”
Á tónleikunum verður plata sveitarinnar Plata ársins flutt en hún fagnar 20 ára afmæli í ár og í tilefni þess er platans gefin út á vinyl í fyrsta skipti. Einnig verða önnur vinsæl lög frá ferli Ég flutt.
Ég var einstök sveit og munaði þar mest um ótrúlega sýn Róberts á hlutina. Gagnrýnendur lofuðu sveitina jafnan í hástert, m.a. skrifaði Arnar Eggert Thoroddsen þessi orð um Róbert: „…þeir fáu sem hlýtt hafa á tónlist hans og sótt tónleika tilbiðja hann sem snilling (ég þar með talinn) á meðan restin af heiminum missir því miður af.“
Fjölmargir minnast Róberts Arnar: „Einstakur tónlistarmaður“
Sem fyrr segir munu fjöldinn allur af veglegum gestasöngvurum koma fram á tónleikunum en þeirra á meðal eru Valdimar Guðmundsson, Eyþór Ingi, Heiða Eiríks, Bjarki Sig, Ari Eldjárn, Örn Eldjárn og Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi).
Unnendur hljómsveitarinnar Ég og Róberts Arnar, sem var einstakur tónlistarmaður og frábær manneskja, ættu ekki að láta þennan viðburð framhjá sér fara en miðasala er þegar hafin inn á Tix.is