Hinn fjögurra ára gamli Baldvin slær í gegn á Snapchat: „Hann er yfirnátturulega mikið krútt“

Hinn fjögurra ára gamli Baldvin Tómas, sonur skemmtikraftsins Sóla Hólm, hefur slegið í gegn á Snapchat-aðgangi (soliholm) föður síns. Baldvin og Matthías, eldri bróðir hans, lenda í því að fólk þekki þá úti á götu og Sóli telur að stór hluti fylgjenda hans á Snapchat séu þar fyrir tilstilli sona hans.

Horfðu á nokkur myndbönd með Baldvini í aðalhlutverki hér fyrir ofan.

Í samtali við Nútímann segist Sóli hafa áttað sig á hversu vinsæll Baldvin var fyrir um ári síðan. „Þá fór ég að taka eftir því að Baldvin var farinn að vekja mikla athygli á Snappinu. Hann er auðvitað miklu yngri og athyglissjúkari en bróðir sinn. Ég var í rauninni bara að taka upp eitthvað úr mínu daglega lífi og fólk fór að sýna Baldvini mikinn áhuga,“ segir Sóli.

Sóli segir að Baldvin átti sig ekki á því hversu vinsæll hann er orðinn. „Sem er að mörgu leyti fínt þar sem frægðin má ekki stíga honum til höfuðs en þegar mest er eru um 10 þúsund manns að horfa á Snöppin,“ segir hann.

Spurður hvort hann telji athyglina of mikla fyrir Baldvin segist Sóli ekki vilja beina að bræðrunum of persónulegri athygli sem þeir kæri sig ekki um. Hann segist þó ekki hafa miklar áhyggur af Baldvini. „Hann er algjört sviðsdýr og ótrúlega athyglissjúkur á eins jákvæðan hátt og hægt er að vera,“ segir Sóli.

Hann hefur núna tvisvar sinnum, óumbeðin, stigið á svið í fermingaveislu og tekið lagið. Hann er reyndar alveg frábær söngvari og heldur lagi fáránlega vel miðað við fjögurra ára krakka — hann getur nýtt sér það þegar hann hættir að vera svona mikið krútt, sem er hans meginstyrkleiki núna.

Sóli segist alltaf vera tilbúinn með síman ef hann sér að eitthvað fyndið er í fæðingu. „Ég þekki hann mjög vel, verandi faðir hans, og átta mig vel á því þegar eitthvað myndband eða mynd er í fæðingu. Svo er hann mikið í endurtekningum og þegar ég sé hann gera eitthvað fyndið gerir hann það oft aftur ef einhver hlær að honum. Matthías hjálpar mér líka að pródúsera snöppin af litla bróður sínum og hefur skoðun á hvað sé fyndið og hvað ekki. Honum finnst litli bróðir sinn alveg sturlað fyndinn en er minna fyrir sviðsljósið hinsvegar,“ segir Sóli.

Þeir sem hafa fylgt Sóla á Snapchat vita að Baldvin elskar fátt meira en að klæða sig upp í búninga. Sóli segir að Baldvin hafi verið með búningaæði frá því að hann var tveggja ára gamall. „Hann vill safna öllum búningum og ef hann sér eitthvað skrítið vill hann fá búning með því,“ segir Sóli.

„Svo spilar athyglissýkin inn í búningaæðið hans. Hann býður eftir því að fólk taki eftir honum í búningnum eða með einhverjar grímur og vill að fólk hafi orð á því hvað hann sé nú flottur. Hann er bara yfirnátturulega mikið krútt og kemst upp með þetta kjaftæði.“

Sóli segir að þónokkur þróun hafi orðið í búningaáhuganum hjá Baldvini. „Í fyrstu var hann algerlega blindur á kyn og var í Línu Langsokks-búningi og fékk svo kjól Elzu úr Frozen sem hann elskaði. Búningarnir verða svo alltaf minna saklausir. Hann er farinn að biðja um grímur af Heath Ledger Jókernum í Batman og einhverjar Killer Clown grímur. Hitt er bara orðið Kid-stuff. Þetta er fljótt að breytast,“ segir Sóli.

Fyrirtæki markaðssetja vörur í stöðugt meira mæli á samfélagsmiðlum og spurður hvort grímufataverslanir óski eftir því að fá að styrkja Baldvin segir Sóli að þær hafi ekki stokkið á það tækifæri. „Þar er einhver ekki að vinna vinnuna sína,“ segir Sóli léttur.

„Þær hafa ekki verið að stökkva á tækifærið. Búningarnir eru margir frá Kína og svo er mamma hans flugfreyja og kemur oft með búninga heim frá Bandaríkjunum.“

Spurður hvort Baldvin sé orðinn frægari en pabbi sinn segir Sóli ekki langt í það. „Þegar fólk er farið að tala um mig sem pabba Baldvins en ekki Baldvin sem son minn þá er ég búinn að tapa þessu, þá er ég ekki lengur frægasti maður fjölskyldunnar,“ segir Sóli léttur. „Ég hugsa samt að 70 til 80 prósent af fólkinu sem fylgist með mér á Snapchat sé að því útaf Baldvini og þeim bræðrum.“

Auglýsing

læk

Instagram