Sex hlutir sem hræddu úr mér líftóruna áður en ég varð pabbi í fyrsta skipti

Í júlí varð ég pabbi í fyrsta skipti. Ég verð að viðurkenna að ég reiknaði ekki með að allar klisjurnar um hvernig lífið UMTURNAST væru sannleikanum samkvæmar en nú, rétt tæplega tveimur mánuðum síðar, verð ég að segja að þær eru allar sannar. Þetta er geggjað. Ég er annar maður. Ég elska son minn meira en ég hélt að væri mögulegt og ég dýrka að tala um hann, óháð því hvort þau sem hlusta nenni því yfir höfuð.

Áður en hann kom í heiminn var ég hræddur við þrennt: Meðgönguna, fæðinguna og það sem myndi gerast eftir fæðinguna. Það er allt og sumt en ég ákvað að taka niður nokkra punkta sem gætu reynst verðandi feðrum gagnlegir eða skemmt núverandi feðrum. Þau sem hata að hlusta á fólk tala um börnin sín geta bara smellt hér og horft á grillað viðtal við Jim Carrey.

1. Ég hélt að ég myndi þvælast fyrir í fæðingunni

Auðvitað hélt ég að fæðingar væru bara eins og í kvikmyndunum. Allt brjálað og pabbinn einhvers staðar klæddur eins og læknir með vindil í rassvasanum að þvælast fyrir. Og auðvitað eru fæðingar ekki þannig í alvöru. Ég var viss um að það yrði lítið gagn í mér og ég yrði sendur eitthvert fram að raða roast beef-samlokum í sjálfsalann.

Til að forðast það leitaði ég ráða hjá góðum vinum sem gátu miðlað reynslu sinni fullvissað mig um að ég gæti komið að heilmiklu gagni. Besta ráðið sem ég fékk var að halda ró minni og vera með allt á hreinu, óháð því hvernig mér myndi líða innanbrjósts. Það meikar sens vegna þess að stress er bráðsmitandi og sú sem fæðir barnið á nóg með snjóflóð af eigin tilfinningum, svo maður fari ekki að bæta í það. Það kom svo á daginn að ég gat hjálpað til í fæðingunni. Lokahnykkurinn, þegar ég klippti á naflastrenginn, hefði reyndar mátt ganga betur en ég er örvhentur og lenti í þessu með strenginn:

2. Ég hélt að ég gæti ekki grátið

Áður en sonur minn fæddist var ég ekki búinn að gráta síðan ég lét fjarlægja vörtu af hægri löpp þegar ég var sjö ára. Ég er sem sagt yfir meðallagi bældur og óttaðist að þegar ég myndi sjá framan í son minn í fyrsta skipti myndi ekkert gerast. Engin tilfinningaleg flugeldasýning myndi fara í gang og að heilbrigðisstarfsfólkið myndi lauma nafnspjaldi hjá færum sálfræðingi í rassvasa minn eftir að þau væru búin að telja fingurna og tærnar á frumburðinum.

Áhyggjurnar reyndust ástæðulausar. Eftir að hafa klökknað oftar en einu sinni í fæðingunni sjálfri (án þess að sýna það — með allt á hreinu, þið munið) þá fylltust augu mín af tárum eins og lón eftir umdeilda virkjanaframkvæmd þegar ég horfði í fyrsta skipti í risavaxin augu sonar míns. Ég fæ gæsahúð bara við að skrifa þetta — hann var svo lítill og skrýtinn á litinn. Núna er hann bara lítill og bleikur.

Ég var svo eiginlega viðkvæmari fyrstu dagana eftir fæðinguna og þurfti bara að heyra gott lag til að tárast og eiga erfitt með að tjá mig með orðum. Þetta ástand er viðvarandi, þannig að ég bið ykkur um að fara gætilega að mér.

3. Ég hélt að ég yrði ógeðslega lélegur í að skipta á bleyjum

Ég óttaðist þetta í alvöru. Að ég gæti aldrei snúið bleyjunni rétt, að ég yrði ógeðslega lélegur í að þrífa hann, að það yrði ekki hægt að skilja hann eftir með mér því ég gæti ekki leyst þetta verkefni sómasamlega og að aðrir feður myndu líta niður á klaufann sem gæti ekki sinnt þörfum sonar síns.

Þessar áhyggjur urðu að engu daginn eftir að sonur minn fæddist. Ljósmóðir kom inn til okkar á landspítalanum og ætlaði að skipta á honum en Lilja krafðist þess að ég myndi gera það — enda þyrfti ég að læra það. Óttinn skein úr augum mínum þegar hún spurði hvort ég hafði aldrei gert þetta áður: „Nei. Eða jú, kannski. Eða. Það er allavega langt síðan.“

Hún brosti bara og sýndi mér á yfirvegaðan hátt hvernig á að fara að þessu. Auðvitað er þetta það auðveldasta sem ég hef nokkurn tíma lært. Þó ég hafi stundum gleymt að rétta tillann á honum af með þeim afleiðingum að hann pissar út fyrir bleyjuna og á mömmu sína. En það er allt í lagi. Karma tók til sinna ráða í síðustu viku þegar hann þeytiskeit á mig á meðan ég var að skipta á honum einn morguninn. Ég átti það skilið.

4. Ég hélt að það yrði fáránlega auðvelt að finna nafn

Ég hef oft hneykslast á fólki sem bíður í marga mánuði með að gefa börnunum sínum nöfn. Hversu erfitt getur það verið? Þegar sonur okkar fæddist vorum við Lilja tilbúin með tvö nöfn sem við vorum ánægð með. Okkur fannst ekkert sjálfsagða en að allavega annað nafnið myndi smellapassa og við höfðum ekki miklar áhyggjur af þessu.

Þegar sonur okkur mætti á svæðið og við litum framan í hann áttuðum við okkur á því að nöfn eru ekki eins og húfur sem eiga að passa á alla hausa. Ekki gátum við gefið honum nafnið Brynjar Níelsson þó honum bregði við minnsta þrusk. Það væri bara skrýtið — ég heiti ekki einu sinni Níels. Okkur fannst eiginlega hvorugt nafnanna sem við vorum ánægð með passa og þurftum því að byrja upp á nýtt. Eftir langa, erfiða fundi, öpp, vefsíður og Gúggl erum við loksins byrjuð að kalla hann með nafninu sem við ætlum að gefa honum. Þið fáið að vita það seinna.

5. Ég hélt að hann myndi grenja að eilífu

Fyrstu vikurnar leið mér þannig að þegar hann fór að grenja þá myndi hann grenja að eilífu. Ég hélt að ekkert myndi virka og hann myndi halda áfram þangað til ég myndi kaupa handa honum skólatösku eftir sex löng og svefnlaus ár. Það er hins vegar ótrúlegt hvað reynsla annarra og allskonar trikk af internetinu virka. Maður tekur auðvitað öllu slíku með ögn af salti og reynir til dæmis að forðast ráð af vefsíðum á borð við Truthwars og samsæriskenningagrúppunni á Facebook. En ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að uppáhaldslag sonar míns væri ryksuguhljóð. Að setja það í gang er bara eins og skrúfa fyrir krana. Ótrúlegt. Við pössum okkur samt að ofnota ekkert og það sem virkar í dag virkar alls ekki endilega á morgun.

6. Ég hélt að það væri ekki hægt að elska svona mikið

❤️❤️❤️

Auglýsing

læk

Instagram