Stóra táin og samfélagsógnin

Það er lygilegt að hugsa til þess hvað stóra táin á hægri fæti er farin að spila stórt hlutverk í lífi okkar. Þeir eru ófáir sem hefja daginn, strax eftir að hafa rifið upp augnlokin, á að grípa um hægri fótinn og verja fyrstu mínútum hins nýja dags á því að skoða stóru tána. Fólk heldur svo áfram þessari iðju yfir morgunverðinum. Hér hugsa kannski sumir með sér að áður fyrr þá lá fólk yfir dagblöðum eða hlustaði á morgunútvarpið og veitti öðru ekki athygli. Að mínu mati er það talsvert eðlilegri iðja en táglápið.

Gamanið heldur svo áfram á leið til vinnu eða skóla, þ.e. svo lengi sem viðkomandi er ekki sjálfur undir stýri (vonandi!). Hvort sem fólk er í strætó, farþegi í bíl, í lest eða neðanjarðarlest, þá er andlitið límt við stóru tána. Jafnvel gangandi vegfarendur verja tímanum í að glápa á stóru tána á hægri fæti. Ekki er langt síðan sett var á laggirnar sérstakir göngustígar í Japan fyrir fólk sem stundar þessa iðju, því líkur eru að á að þeir gangi hægar eða skapi hættu fyrir aðra vegfarendur vegna skorts á athygli á umhverfi sínu.

Í skóla eða í vinnunni er hver pása nýtt í að skoða stóru tána og svo aftur á heimleiðinni. Guð einn veit svo hversu miklum tíma er varið í að skoða stóru tána á hægri fæti þegar heim er komið. Svo er gjarnan það síðasta sem fólk gerir fyrir svefninn að glápa á stóru tána.

Gott og vel. Það er margt gott við þessa þróun og ég vil ekki vera leiðinlegi gæjinn og segja að þetta sé alslæmt. Það eru ýmis þægindi sem fylgja þessu og hægt að uppgötva margt við þessa iðju. En við verðum að passa að gleypa ekki við þessu eins og hungraðir þorskar í ætisleit. Hugum að því hvað það er sem skiptir í raun og veru máli. Það sem mér finnst einna verst við þessa þróun er þegar fólk skoðar stóru tána á hægri fæti á samverustundum. Maður er manns gaman og að fara á kaffihús eða veitingahús á að snúast um samveru. Fyrsta spurning til þjónsins ætti ekki að vera um hvort aðstaða sé til að skoða stóru tána þína. Horfið frekar á hvort annað. Njótið matarins í stað þess veita stóru tánni of mikla athygli. Talið saman og hlustið á hvert annað.

Þetta á einnig við heima fyrir. Og varðandi ferðalögin til og frá vinnu, njótið heldur umhverfisins og það sem fyrir augu ber. Nú ef ykkur leiðist umhverfið, notið tímann til að hugsa um daginn og veginn. Ég veit ekki til þess að neinn hafi látist við þá iðju. Ekki það að það sé lífshættulegt að glápa á stóru tána á hægri fæti, en ég vona að þið áttið ykkur á hvað ég við hérna. Góðar stundir – með minna táglápi.

Auglýsing

læk

Instagram