today-is-a-good-day

Vel spilað, Kalli!

Vefpressan (nú Frjáls fjölmiðlum) hefur verið í allskonar vandræðum undanfarið en ef einhver getur rekið þetta batterí réttu megin við núllið, þá er það Karl Garðarsson. Ég tala af reynslu.

Kalli var sá fyrsti sem réð mig á fjölmiðil í Reykjavík eftir að ég flutti frá Selfossi, blautur á bakvið eyrun. Hann var þá ritstjóri Blaðsins (sem varð svo 24 stundir) og ég var ráðinn í umbrotið. Eftir nokkra mánuði fór mig að langa til að skrifa í Blaðið en mér fannst einnig tímabært að biðja um launahækkun. Ég fór því á fund Kalla og óskaði eftir hvoru tveggja.

Kalli tók vel í beiðni mína um að fá að skrifa. Ég mætti í umbrotið klukkan 11 á morgnana þannig að hann var til í að fá mig á svæðið klukkan níu, skrifa fréttir í dægurmálahluta blaðsins í tvo tíma og skipta svo yfir í umbrotið. Mér leist vel á það enda var ég alveg til í að vinna meira. Beiðninni um launahækkunina tók hann líka vel. Sýndist mér. Hann var til í að hækka launin mín úr 200 í 250 þúsund krónur (það er langt síðan) og ég gekk sigri hrósandi út af fundinum.

Ég var rosalega ánægður með sjálfan mig þangað til ég fattaði að launin höfðu hækkað um 25 prósent — alveg eins og starfshlutfallið!

Vel spilað, Kalli!

Auglýsing

læk

Instagram