Morrissey forherðist: „Hann vill vera prinsippmaður“

Array

Aðdáendur tónlistarmannsins Morrissey syrgja nú ákvörðun hans að hætta við að koma fram í Hörpu vegna þess að veitingastaðir hússins bjóða upp á kjöt á matseðlum sínum. Ákvörðunin hefur vakið mikla athygli hér heima og erlendis og margir af stærstu fjölmiðlum Bretlands hafa fjallað um málið.

Kjartan Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður á RÚV, tónlistarspekingur og aðdáandi Morrissey, segir auðvitað leiðinlegt að fá ekki tækifæri til að fara á Morrissey-tónleika á Íslandi aftur.

„Því það er alltaf gaman. Ég er kannski rólegri yfir þessu en margir aðrir því ég hef verið svo heppinn að sjá hann fimm sinnum á tónleikum, en skil vel að aðrir séu pirraðir. Morrissey-aðdáendur eiga það til að vera fólk tilfinninganna,“ segir hann léttur.

Hann segist þó skilja söngvarann vel.

Morrissey þykir vænna um dýr en nokkuð annað í heiminum og hegðar sér samkvæmt því. Það væri nú líklega lítið gaman að tónleikunum hvort sem er ef stjarnan á sviðinu væri með óbragð, eða æluna, í munninum.

Morrissey er grænmetisæta og fréttir undanfarinna missera benda til þess að hann sé að forherðast í afstöðu sinni til kjötáts og kjötæta. Kjartan segir rétt að hann virðist vera farinn að taka þessi mál fastari tökum.

„Að minnsta kosti heyrir maður æ oftar að Morrissey hafi neitað eða koma fram hér og þar, eða fyrirskipað að tónleikastaðir séu kjötlausir,“ segir hann.

„Hann vill vera prinsippmaður og þetta er hluti af þeirri viðleitni. Er það ekki bara ágætt? Það er ekki eins og þeim sem standa fastir á skoðunum sínum rigni af himnum ofan nú til dags. Að sama skapi skil ég Hörpu vel, eða hvern sem það var sem tók þessa ákvörðun. Ef Morrissey þykir ekki nógu merkilegur væri auðvitað rugl að loka heilum veitingastað heilt kvöld í hans þágu. Það þurfa ekki allir að dansa í takt, alltaf.“

Auglýsing

læk

Instagram