Fyrirtæki auglýsir eftir fólki til starfa til að klæmast við graða Íslendinga

Fyrirtækið Cloudworkers hefur auglýst atvinnu í nokkurn tíma á Íslandi og í auglýsingu þeirra segir að hægt sé að vinna starfið að fullu í fjarvinnu.

Starfstitillinn sem fyrirtækið gefur upp er samskiptastjóri og í auglýsingu frá fyrirtækinu er að finna mjög bjagaða og slæma íslensku og ákvað Nútíminn því að athuga um hvers konar starf væri að ræða og hvort þar væri svindl á ferðinni.

Nútímanum þótti grunsamlegt hversu slæm íslenskan var

Send var fyrirspurn til fyrirtækisins um hvers konar starf sé um að ræða og svar barst skömmu seinna.

Í svarinu kemur fram að starfið snúist um að svara viðskiptavinum sem séu til staðar í því sem þeir kalla daður samfélag á netinu og að starf þess sem sækir um, sé að tala um hvað sem viðskiptavinurinn hefur áhuga á, en oftast sé þó um svokallað „fullorðins“ samtal að ræða og að þess vegna komi fram í starfslýsingu að umsækjandi þurfi að geta starfað í slíku umhverfi.

Þar sem spurt var um laun var gefið upp að fyrir hvert skilaboð fengi starfsmaður greiddar 0.16 evrur eða 16 sent, sem eru um 24 íslenskar krónur og er hægt að fá launin greidd annaðhvort inn á bankareikning eða Paypal.

Eftir nánari skoðun á starfsemi fyrirtækisins kom í ljós að Cloudworkers rekur sjálft ekki stefnumótasíðurnar sem samskiptastjórar þeirra starfa á heldur er fyrirtækið ráðið af þriðja aðila til að annast erótískt spjall við viðskiptavini.

Umsagnir fyrrum starfsmanna eru misjafnar. Einn útskýrir meðal annars að tímakaup hans hafi venjulega verið um 300 krónur á klukkustund sem er langt undir löglegum lágmarkslaunum á Íslandi.

Blaðamaður gat ekki fengið staðfest hvort starfsemi fyrirtækisins sé lögleg hér á landi en fékk þó ábendingu um að fólk þurfi að fara mjög varlega þegar kemur að fyrirtækjum sem auglýsa að þau séu tilbúin að borga laun svart inn á forrit eins og Paypal því lögmæti þeirra gæti verið vafasamt.

 

 

Auglýsing

læk

Instagram