„Ég hef fórnað heilsunni, barneignum og samböndum fyrir vinnuna“

Linda Rós Haukdal hefur alltaf haft marga bolta á lofti, unnið mikið og varla stoppað á milli verkefna. Henni hefur ætíð fundist gaman í vinnunni en segist jafnvel hafa notað vinnuna sem ákveðna flóttaleið eftir mörg áföll á lífsleiðinni. Allri vinnunni fylgdi líka fórnarkostnaður. Linda segist hafa fórnað heilsunni, barneignum og samböndum fyrir vinnuna og það sé í raun líklega lykillinn að því af hverju allt fór eins og það fór. Í nokkur ár hefur Linda reynt að eignast barn, án árangurs. Hún segist þó enn halda í vonina um að eignast barn og vonast eftir kraftaverki.

„Ég er alin upp á rakarastofu, bæði mamma og pabbi eru hársnyrtimeistarar, og ég man eftir mér um tíu ára aldurinn þar sem ég stóð á kókkassa að skola permanent-vökva úr hárinu á einni konu með mömmu,“ segir Linda glaðlega þegar blaðamaður spyr hvenær hún hafi byrjað í hársnyrtigeiranum. „Pabbi var rakari og átti stofu á Húsavík, þar sem ég er fædd og uppalin, og mamma vann hjá honum þar til þau skildu og hún opnaði sína eigin stofu. Ég var kannski ekkert ákveðin í að feta í þeirra fótspor þegar ég var stelpa en mamma segir að ég hafi nú beðið um samning þegar ég var fimmtán ára.

Ég man að þegar ég fór sem skiptinemi í eitt ár til Ástralíu, bjó þar í bæ sem heitir Mackay og er í norður Queenslandi, fann ég að ég saknaði umhverfisins var ég farin að standa fyrir utan hársnyrtistofur til að fylgjast með því sem væri þar í gangi. Þá vissi ég að þetta væri það sem ég vildi leggja fyrir mig.“

Þetta er brot úr lengra forsíðuviðtali Vikunnar.

Linda kom heim eftir skiptinemadvölina um jólin 1993 og byrjaði strax í janúar 1994 að vinna á stofunni hjá mömmu sinni. Hún fór í Iðnskólann í Reykjavík um haustið og lærði til hársnyrtis. „Mér gekk mjög vel í skólanum og það var aldrei annað í boði en að taka líka meistarann, sem ég gerði. Ég lærði líka förðun, bæði almenna förðun og leikhúsförðun, og vann við það meðal annars um tíma hjá Skjá Einum og fyrir alls konar auglýsingar og sýningar. Ég vildi hafa alla möguleika opna en svo er ég mikil keppnismanneskja og finnst að maður eigi að klára það sem maður byrjar á og fara alla leið. Það skilaði sér í sjöföldum Íslandsmeistaratitlum,“ segir hún brosandi.

„Ég keppti í landsliðinu í herraklippingum og var síðast í sveinsprófsnefnd í hársnyrtiiðn. Ég hefði samt gjarnan viljað vita að það væri nauðsynlegt að hvíla sig líka og keyra sig ekki endalaust út. En það þýðir auðvitað ekkert að velta sér upp úr „hefði getað,“ „hefði átt að“ og „hvað ef?“ því það gerir manni ekkert gott að vera alltaf að horfa í baksýnisspegilinn og iðrast einhvers. Kannski saga mín geti samt ýtt við einhverjum sem er í sömu sporum, að gleyma sér í vinnu, því ég er búin að vinna margt frá mér. Ég er til dæmis búin að vinna frá mér sambönd og barneignir, gleymdi mér bara í vinnunni því það var og er svo gaman. Hefði ég vitað þá það sem ég veit í dag hefði ég gefið mér meiri tíma fyrir sjálfa mig.“

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

 

Ef þú fengir tækifæri til að snúa við og breyta einhverju í lífi þínu myndirðu gera það?

„Ég er mjög mikið í núinu því um leið og ég fer að hugsa: hvað ef, ég hefði átt að … þá kemur kvíðinn, vonbrigðin og höfnunin. Maður á ekki að segja ég hefði átt að … maður á frekar að hugsa: ég geri bara betur. Ég viðurkenni samt að ég hefði viljað vita af Lipeodema- sjúkdómnum fyrr því þá hefði ég ekki verið að berja sjálfa mig niður fyrir að mistakast þegar ég var að gera mitt besta en mitt besta átti bara engan séns út af þessum sjúkdómi. Ég hef samt lært rosalega mikið af þessu öllu. Ef ég fengi aðra tilraun þá myndi ég ekki vinna svona mikið. Ég gleymdi mér í vinnunni og fórnaði rosalega miklu. Ég hef fórnað heilsunni, barneignum og samböndum fyrir vinnuna. Það er í raun líklega lykillinn að því af hverju allt fór eins og það fór.“

Auglýsing

læk

Instagram