Auglýsing

Bestu sundlaugarnar fyrir fjölskyldufólk? Við spurðum mömmur og þær eru með þetta

Það getur bjargað deginum að koma gormunum í sund! En það getur verið flókið að finna bestu laugina. Þarfirnar innan fjölskyldunnar breytast, laugarnar detta úr eða í tísku, eitthvað batnar annað versnar, þið vitið. Svo við spurðum mömmurnar og fengum frábærar upplýsingar frá félögum í spjallhópnum Mæðratips á Facebook. Hér er samantekt um kosti og nokkra galla eftirlætis sundlauganna þeirra.

Lágafellslaug í Mosfellsbæ
Hrein og snyrtileg aðstaða. Hlýjar laugar og auðvelt að hafa yfirsýn og fylgjast með börnunum. Korkflísar eru kærkomnar fyrir hlaupandi fætur. Mjög góður kostur fyrir börn á aldrinum 2-5 ára. Buslpottur með rennibraut, plús þrjár rennibrautir fyrir eldri krakkana. Þægilega heit fyrir foreldrana líka.

Ásvallalaug í Hafnarfirði
Frábært svæði og fjölbreytt. Góð innilaug fyrir litlu börnin og auðvelt að hafa yfirsýn. En afar slæmar sturtur (miklar og óvæntar hitabreytingar), þröngir klefar þegar mikið er að gera og kalt þar. Fáir stólar og skiptiaðstaðan léleg og á fáránlegum stað. Botninn á vaðlauginni er líka fjandsamlegur fullorðinsbossum – ekki mælt með því að vera að renna sér mikið til á honum.

Álftaneslaug 
Allt til alls nema það vantar balana fyrir þau minnstu. Öldulaugin æðisleg fyrir stóru krakkana. Frábært starfsfólk, góðir klefar – breiðir bekkir og skápar. Hrein og fín laug.

Selfosslaug
Mjög skemmtilegt svæði og hæfilega djúp laug sem hentar fyrir börn á öllum aldri. Foreldrunum verður heldur ekki kalt þar. Góð aðstaða í klefum og skemmilegar rennibrautir fyrir þau yngstu.

Sundlaugin í Vestmannaeyjum
Æðisleg laug með frábærri aðstöðu fyrir allan aldur, nóg af rennibrautum og leiktækjum. Sturtuaðstaða til fyrirmyndar.

Árbæjarlaug
Fín aðstaða fyrir ungabörn, góð skiptiaðstaða og frábærir klefar. Góð innilaug en ekkert dót. Allar laugarnar samtengdar sem er mikill kostur. En þar geta verið mikil læti þegar margt er um manninn.

Seltjarnarneslaug
Grunn og barnvæn laug fyrir þau allra minnstu en þar verður foreldrunum oft fljótt kalt. Frábært fyrirkomulag að hafa heitan pott rétt við rennibrautina, krökkunum verður kalt á milli ferða (vatnið í rennibrautunum mætti vera heitara).

Sundlaug Kópavogs
Fyrirmyndar fjölskyldusundlaug; góð vaðlaug, heppilegar aldursskiptar rennibrautir, leikföng og góðir pottar og 50 metra laug fyrir syndarana. Snyrtileg aðstaða og góður opnunartími, eini gallinn er hálar flísar.

Salalaug í Kópavogi
Með bestu klefana að sumra mati en laugin er síðri.

Sundlaugin í Þorlákshöfn

Frábær aðstaða ef fólk vill vera inni, sérstaklega fyrir litlu krílin. Æðisleg innilaug með leiktækjum. Sumum finnast þó sturturnar of heitar.

Vatnaveröld í Reykjanesbæ
Góð aðstaða fyrir ungabörn, sérklefar í boði sem eru rétt við innilaugina. Balar og stólar og skiptiaðstaða til fyrirmyndar – líka í karlaklefanum. Oft margt um manninn og talsverð læti.

Sundlaugin á Blönduósi
Frábær aðstaða, vaðlaugin er góð og hlý. Skjólsæl buslulaug sem er draumur fyrir barnafólk. Allt til fyrirmyndar.

Sundlaugin á Akureyri
Góð aðstaða fyrir fjölskyldufólk, buslulaug, rennibrautir og lítil innilaug líka. Allt til alls á frekar litlu svæði sem er mikill kostur fyrir foreldra.

(uppfært eftir fleiri góðar ábendingar!)

Sundlaugin á Laugum
Aðstaðan í sundlauginni á Laugum hentar afar vel fyrir fjölskyldufólk. Gólf í klefum er með stömum flísum svo þar er lítil slysahætta, buslulaugin frábær fyrir bæði börn og fullorðna. Fyrirmyndarpottur líka.

Grafarvogslaug
Frábær innilaug, passalega djúp útilaug þar sem er hægt að leika og lendingarlaugin fyrir rennibrautina er samtengd. Rennibrautin gæti samt verið betri. Buslulaug með trúð. Fínir klefar en sturturnar slappar, maður þarf að stilla hitastigið sjálfur sem er frekar óbarnvænt.

Einnig voru nefnar sundlaugar á Egilstöðum, Varmahlíð, Stykkishólmi, Hellu, Sandgerði, Hrafnagili og Höfn og fengu þær allar góða einkunn og meðmæli. Vitanlega er þetta langt frá því að vera endanleg samantekt um efnið svo þið lesendur megið gjarnan kommenta og bæta við þekkinguna. Virða ber þó að ekki hafa allir sama sundstaða-smekk. Hvar ætlar þú að dýfa þér oní í sumar?

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing