Hvetja fólk til þess að halda köttum inni á varptíma

Í fréttatilkynningu frá Fuglavernd skora þeir á kattaeigendur að halda köttum sínum inni yfir varptíma fugla.

Í tilkynningunni segir að kettir séu öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

Fuglavernd gefur upp nokkur góð ráð fyrir kattaeigendur svo hægt sé að draga úr tjóni á náttúru af völdum útikattar:

1. Stýra útivistartíma kattarins. Halda ætti öllum köttum inni á nóttunni (helst frá kl. 17 til kl. 9 næsta morgun).

2. Fuglakragi ásamt bjöllu ætti að vera staðalútbúnaður útikattarins og ætti að duga flestum.

3. Sjá til þess að kötturinn fái góða örvun og fæðugjafir við hæfi heima fyrir.

4. Gelda köttinn eigi hann að fá að vera úti. Geldir kettir fara að jafnaði yfir minna svæði þegar þeir eru úti og hafa minni áhuga á veiðum.

5. Fara reglulega með útiketti í ormahreinsun. Þetta atriði er mikilvægt heilsu kattarins, heilsu manna og heilsu villtra dýra.

Vilji garðeigendur verja fuglavarp í garðinum sínum fyrir ágangi katta (þeirra eigin eða annarra manna) getur verið ráð að sprauta köldu vatni á köttinn þegar hann gerir sig líklegan til að fara í hreiður (auðvitað á þann hátt að kettinum verði ekki meint af). Sumum hefur reynst vel að hafa garðúðara í gangi með litlum þrýstingi undir hreiðurstað. Þá hefur vatnsúðarakerfi með hreyfiskynjurum gefið góða raun. Einnig fást í dýrabúðum ýmis fælingarefni með lykt sem köttum finnst vond, sem t.d. má setja undir tré með hreiðri. Allt gæti þetta dregið verulega úr áhuga kattarins á viðkomandi hreiðri en óvíst er þó hvort slíkar aðgerðir trufli varpfuglana.

Auglýsing

læk

Instagram