Páll Óskar slær upp Eurovision-Pallaballi

Páll Óskar slær upp Eurovision-Pallaballi á k100 á morgun, föstudaginn 8. maí, kl. 20:00. Sérstakur gestur hans verður söngkonan Regína Ósk.

„Þótt Eurovision verði ekki haldið með eðlilegu sniði í ár ætlum við að gera okkar besta til að reyna að halda uppi eðlilegu stuði. Þessi dagskrá á föstudagskvöldið verður hluti af því,“ segir Páll Óskar í samtali við k100.is .

„Þetta verður Pallaball í beinni eins og venjulega en með sterku eurovisionbragði,“ bætti hann við.

Áhersla verður lögð á Eurovision lög en Palli mun einnig taka eigin lög inn á milli.

„Og úr því að það er Eurovisionþema fæ ég Regínu Ósk með mér sem sérstakan gest. Hún er náttúrlega hokin af reynslu þegar kemur að því að syngja eurovisionlög. Við ætlum að keyra þetta partí áfram saman,“ segir Palli.

„Ég vona bara að sem flestir hlusti og hækki í botn. Þetta er náttúrlega „stuðprógramm“ þannig að fólk getur alveg dansað með fyrir framan skjáinn,“ bætir hann við.

Eurovision-Pallaballið verður í beinni á morgun klukkan 20:00 , bæði í útvarpinu og sjónvarpinu á K100.is, í Nova TV sem er opið öllum og á rás 9 í Sjónvarpi Símans.

Auglýsing

læk

Instagram