Þrír eru látnir hér á landi eftir að hafa fengið bólusetningu við kórónuveirunni

Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, var gestur þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar greindi hún frá því að þrír sjúklingar með undirliggjandi sjúkdóma hafi látist hér á landi eftir að hafa verið bólusettir við kórónuveirunni í síðustu viku. Greint er frá þessu á vef Vísis

„Það er ekki víst að þetta sé aukaverkun af lyfinu, alls ekki, að það sé orsakasamhengi við það. En það er mikilvægt að tilkynna þetta svo þetta sé skoðað, því það er orsakasamhengi í tíma. Þó að þetta séu einstaklingar sem eru aldraðir og með undirliggjandi sjúkdóma. Þannig að það er mikilvægt að safna þessum upplýsingum,“ sagði Rúna.

Aðspurð að því hvort hægt sé að tengja dauðsföllin og bóluefnið saman segir Rúna að það séu litlar líkur á því að bóluefnið hafi mögulega orsakað andlátin.

„Í þessu tilviki eru það hverfandi líkur. Ég get í rauninni ekkert sagt um það eins og er.“

Rúna talaði í þættinum um eitt andlát í kjölfar bólusetningar hér á landi en hún staðfesti það við fréttastofu Vísis að andlátin séu nú orðin þrjú. Fréttin var uppfærð í samræmi við það. 

Auglýsing

læk

Instagram