Allir mega vera í Grindavík á eigin ábyrgð: Bæjarfélagið ekki fyrir börn

Íbúar í Grindavík og starfsmenn fyrirtækja í bæjarfélaginu mega vera þar allan sólarhringinn samkvæmt ákvörðun Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Í tilkynningu Úlfars til RÚV er áréttað að innviður séu í lamasessi í bænum og það sé ekki staður fyrir börn að leik – enn sé hætta á sprungum. Þá kemur einnig fram í frétt RÚV um málið að aðstæður sums staðar séu ekki það sem „telja má boðlegt fyrir búsetu í húsum.“

Þá segir enn fremur:

  • Íbúar og starfsmenn fari inn í bæinn á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi. Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í lamasessi. Stofnlögn heitavatns til bæjarins lekur, að því er talið er undir hrauni, en leitað er bilunar. Það eru tilmæli til fólks að ekki sé hróflað við stillingum heitavatns í húsum. Kalt vatn er ekki komið á og því ekkert neysluvatn. Aðstæður eru því aðrar en þær sem telja má boðlegar fyrir búsetu í húsum.
  • Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirfara. Hætta er metin töluverð á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum. Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun.
  • Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Fólk haldi sig við gangstéttir og götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
  • Grindavík er lokuð öllum öðrum en íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.
Auglýsing

læk

Instagram