Auglýsing

Framkvæmdastjóri Ísteka segir blóðtöku lítið inngrip og hafi engin áhrif á heilsu hrossanna

„Alvarlegasti misskilningurinn er að þetta sé dýraníð. Þetta er ekki dýraníð. Þetta er afurðanýting eins og hver önnur,“ segir Arnþór Guðlaugsson framkvæmdastjóri Ísteka sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.

Ísteka er það íslenska líftæknifyrirtæki sem vinnur með blóð úr fylfullum hryssum og framleiðir úr því virkt lyfjaefni sem notað er í búfénað erlendis. Mikil umræða hefur verið um blóðmerahald undanfarið og bændur sakaðir um gróft dýraníð í því samhengi. Arnþór segir þessa umræðu á miklum villigötum og fullyrðir í raun að þau hross sem nýtt eru í þessari búgrein séu mun betur haldin en flest önnur húsdýr.

„Íslenskum hrossum líður best úti í íslenskri náttúru og það er þar sem þær eru 99.9% af sínu lífi. Þetta er að því leitinu til miklu betra en margt annað dýrahald og líklega bara flest. Náttúrulegum háttum hrossins er fullnægt hvað best miðað við aðrar skepnur og þá er ég að tala um þessar útigangshryssur. Það skiptir eiginlega ekki máli hvar þú setur niður fótinn, önnur dýr í haldi manni eru ekki betur haldin og þó verr ef eitthvað er. Þá er ég ekki bara að tala um búpening heldur gæludýr líka,“ segir Arnþór og bætir við að dýrahald hafi mismunandi áhrif á dýrin.

„Við mennirnir höldum dýr okkur til bóta og það hefur mismunandi áhrif á dýrinn og í öllum tilfellum er það vel réttlætanlegt. Það eina sem ég er að segja hér er að þessar hryssur sem eru í þessari starfsemi og þessari framleiðslu hafa það ekki síðra og líklega eitthvað betra en langflest af þessum hinum dýrum sem við mennirnir höfum tamið og notað.“

Dýraníð alvarlegur misskilningur

„Alvarlegasti misskilningurinn er þetta sem þú nefndir í upphafi. Dýraníð. Þetta er ekki dýraníð. Þetta er afurðanýting eins og hver önnur. Það er alveg eðlilegt þegar verið er að nýta afurðir af skepnum að þær séu teknar af mönnum í stuttan tíma á meðan afurðirnar eru teknar. Kindur eru rúnaðar og beljur eru mjólkaðar. Það þarf að setja þennan skilning sinn yfir á þetta líka. Það að þetta sé blóð skiptir engu máli, þetta er það lítið inngrip að það hefur engin áhrif á heilsu hrossanna,“ segir Arnþór.

„Þetta er sambærilegt því þegar menn gefa blóð í Blóðbankanum?“ spyr Frosti.

„Mjög sambærilegt, ívið hærra hlutfall en hross hafa bæði aukabyrðir af blóði og auk þess eru þau hlaupadýr og eru dugleg að framleiða blóð. Tekur tvær vikur að jafna sig að fullu eftir þetta. Svo eru þau ofboðslega stór hrossin og stærð skepna skiptir afskaplega miklu máli. Það sem hefur verið gert til dæmis í þessari umræðu er að skoða einhverjar fræðigreinar um tilraunadýr og reyna að uppfæra það yfir á hross en það er alveg út í hött.“

Hægt er að horfa og hlusta á þetta viðtal með áskrift að Brotkast en hér fyrir neðan er hægt að sjá myndskeið úr viðtalinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing