Frosti í Harmageddon segir aðförina að Rapyd á Íslandi óheiðarlega og glórulausa

„Þetta er fyrirtæki með íslenska kennitölu, starfar hér á Íslandi og borgar skatta og gjöld og greiðir laun til að mér skilst 180 íslenskra starfsmanna. Það eru 180 fjölskyldur þarna að baki sem vinna störfin sín og fyrirvinnuna ef Rapyd á Íslandi fer í þrot,“ segir Frosti Logason í þrumuræðu í hlaðvarpsþættinum Harmageddon á Brotkast.

Hann er ómyrkur í máli þegar það kemur að þeim sem „telja göfugt að knésetja greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd á Íslandi vegna tenginga þess við Ísrael“ og segir aðförina bæði óheiðarlega og glórulausa.

„…ef þú ætlar að fara í einhverja herferð til þess að reka það fyrirtæki í þrot að þá geriru ekkert til þess að skaða ísraelskan efnahag eða stöðva styrjöldina á Gaza. Það er bara verið að keyra í þrot íslenskt fyrirtæki með íslenskum starfsmönnum.“

Starfsmenn og fjölskyldur þeirra taka skellinn

„Valitor og þessi fyrirtæki sem voru fyrirrennnarar Rapyd höfðu þróað íslenska greiðslumiðlunartækni í áratugi sem þeir gera enn. Þeir eru með íslenska greiðslumiðlun sem Seðlabanki Íslands hefur talað fyrir mikilvægi þess að við séum með íslenska greiðslumiðlun. Það er þjóðaröryggismál að við séum með íslenskt greiðslumiðlunarkerfið og Rapyd á Íslandi er eina fyrirtækið sem er með slíkt kerfi. Með íslenskum hugbúnaði, þróaður á Íslandi og starfræktur á Íslandi,“ segir Frosti og bendir á að hin fyrirtækin, líkt og Straumur, Landsbankinn og fleiri séu að nýta sér erlendar greiðslumiðlunarlausnir.

„Þið eruð ekki að réttlæta eða styðja þjóðarmorð þó svo að þú neitir að taka þátt í því að knésetja íslenskt fyrirtæki með íslenskum starfsmönnum“

„Rapyd er íslenskt fyrirtæki í húð og hár hvað það varðar þó svo að ísraelskir eigendur hafi eignast það fyrir þremur árum síðan. Þetta er fyrirtæki með íslenska kennitölu, starfrækt á Íslandi og með íslenska starfsmenn og ef þú ætlar að fara í einhverja herferð til þess að reka það fyrirtæki í þrot að þá geriru ekkert til þess að skaða ísraelskan efnahag eða stöðva styrjöldina á Gaza. Það er bara verið að keyra í þrot íslenskt fyrirtæki með íslenskum starfsmönnum. Ef manni finnst vera of langt gengið í því að ráðast að íslensku fyrirtæki með 180 starfsmenn um það bil með 180 fjölskyldur þar að baki – það er fólkið sem fær að kenna á þessu. Ef mér mislíkar það eða ofbýður að þá er ég að réttlæta eða styðja þjóðar- og barnamorð,“ segir Frosti sem hvetur fyrirtæki sem eru með posa frá Rapyd að láta ekki lítinn háværan minnihluta hafa áhrif á sig.

Standið í lappirnar

„Þó þið séuð sett á einhvern svartan lista á netinu fyrir að vera með Rapyd-posa, látið það ekki hafa áhrif á ykkur. Standið í lappirnar. Þið eruð ekki að réttlæta eða styðja þjóðarmorð þó svo að þú neitir að taka þátt í því að knésetja íslenskt fyrirtæki með íslenskum starfsmönnum,“ segir Frosti sem vill samt undirstrika það að hann vill að hörmungarnar á Gaza stoppi ekki seinna en í gær.

„Ég vill ekkert frekar en að þetta sé stoppað strax í gær. Þetta er allt of langt gengið og fyrir löngu síðan. Þó svo að þú takir ekki þátt í að knésetja íslenskt greiðslumiðlunarfyrirtæki að þá ertu ekki að styðja barna- eða þjóðarmorð.“

 

Auglýsing

læk

Instagram