Auglýsing

Innbrotsþjófar sem nýta sér ástandið á Suðurnesjum: „Mig grunar að tíkin hafi fælt manninn í burtu“

Í nótt var reynt að brjótast inn í að minnsta kosti tvær íbúðir á Suðurnesjum en Anika Lind Olsen var komin undir sæng uppi í sófa heima hjá sér þegar reynt var að komast inn í íbúð hennar í gegnum bakgarðinn.

„Já, það var reynt að opna hurðina heima hjá mér klukkan 01:15 í nótt. Ég var nýkomin heim úr göngutúr og var sem betur fer með Chow Chow-tíkina mína hjá mér. Hún æstist öll upp og fór að gelta – mig grunar að það hafi fælt manninn í burtu,“ segir Anika Lind sem stökk í föt og hringdi í barnsföður sinn sem býr rétt hjá henni í Sandgerðishluta Suðurnesjabæjar.

Cobra, Chow Chow-tíkin hennar Aniku, gelti á innbrotsþjófinn sem þá forðaði sér í burtu.

„Hann kemur á bíl og skoðar í kringum götuna. Við göngum svo saman hring í kring um húsið til þess að athuga hvort við kæmum auga á einhvern en þá sjáum við þessi fótspor í garðinum hjá mér. Það er eins og þessi maður hafi labbað í garðinn minn, frá húsinu hafi hann hoppað yfir lágt grindverk og farið þaðan að húsinu sem er við hliðina á mínu. Ég fór svo heim og hringdi í lögregluna,“ segir Anika Lind sem vakti athygli á þessu í samræðuhópi sem er fyrir íbúa í Sandgerði.

Fylgjast vel með mannaferðum að næturlagi

Það stóð ekki á viðbrögðum því aðrir hafa sagt frá svipuðum atburðum – önnur kona var heima hjá sér í Garðinum – sem einnig er hluti af Suðurnesjabæ. Hún sagði að einhver hafi reynt að komast inn í íbúð hennar eftir miðnætti í gær. Sömu sögu er að segja af íbúum í öðrum bæjarfélögum á Suðurnesjum.

Það má því draga þá ályktun að einstaklingar sem standa í skipulögðum innbrotum hér á landi beini nú augum sínum að íbúðum á Suðurnesjum – þar sem góðar líkur eru á því að heimilisfólkið sé fjarri vegna heitavatnsleysis og rafmagnsskömmtunar.

Nútíminn hvetur alla til þess að hugsa um nágranna sína – sérstaklega á þessum erfiðu tímum þar sem margir gætu verið að gista annarsstaðar en heima hjá sér og fylgjast vel með mannaferðum að næturlagi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing