Íslensk hjón á áttræðisaldri fundust látin í síðustu viku í íbúð sinni í bænum Torrevieja á Spáni. Ræðismaður Íslands í Orhuela Costa, vestan við Torrevieja, staðfestir þetta í samtali við DV.
Að sögn ritara Ræðismanns hefur skrifstofan ekki upplýsingar um hvað kom fyrir. Aðeins að þau hefðu fundist látin í íbúð í umdæminu. Skrifstofunni barst tilkynning frá útfararstofu þann 10. janúar.
Samkvæmt heimildum DV fannst fólkið á sitthvorum staðnum í íbúðinni. Höfðu þau verið búsett á Spáni um nokkurra ára skeið.
Að sögn Ægis Þórs Eysteinssonar, fjölmiðlafulltrúa Utanríkisráðuneytisins, sem DV ræddi við er ráðuneytið meðvitað um málið. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Ekki er vitað hvort að málið sé til rannsóknar hjá lögreglu.