Jafnréttisstofa vill ekki að kennarar noti orðin strákur og stelpa

Í þættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni var verið að fjalla um íslenskt tungumál og meðal umfjöllunarefnis var grein Völu Hafstað á Vísi sem ber nafnið Útrýming mannsins á RÚV.

Þar segir hún að byrjað sé að kenna kynhlutlaust tungumál í sumum grunnskólum landsins og að þar sé meðal annars ekki notað orðið maður heldur er því skipt út fyrir orð sem þykir hentugra hverju sinni.

Jón P. Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, mætti í þáttinn og var spurður hvernig kynhlutlaust tungumál væri notað í kennslu.

Aðspurður segist Jón ekki hafa yfirsýn yfir hvar væri verið að kenna kynhlutlaust tungumál en að það væri í einhverjum skólum en að engin opinber stefna væri til fyrir skóla landsins til að kynhlutleysa tungumálið.

Hann segir að hvergi í námsskrá sé að finna reglur um kynhlutlaust tungumál og að kenna eigi eftir námskrá sem er í gildi hverju sinni.

Hann viðurkennir að notkun á kynhlutlausu tungumáli fari einfaldlega eftir kennaranum sem börnin hafa. Hann segir að jafnræðis sé ekki gætt í grunnskólum landsins og það fari hreinlega eftir kennara hvernig nám börnin fá og hvað þau læra og hvernig.

Hann segir einnig að ef að kennari hafi sérstakan áhuga á að kynhlutleysa málið þá standi ekkert í vegi fyrir því. Skólastjóri beri síðan ábyrgð á náminu í skólanum og bætir við að engar skipanir að ofan segi að kenna skuli tungumálið á þennan hátt.

Aðspurður viðurkennir Jón að þegar málið er kennt á þennan hátt geti það skarast á við útgefið námsefni sem nemendur notast við og slík kennsla geti skarast á við þá málfræði sem kennurum ber að kenna samkvæmt námsskrá en segist ekki vita til að slíkt hafi komið upp ennþá.

Hann bætir svo við að Jafnréttisstofa Reykjavíkur hvetji til að ekki séu notuð orð eins og stelpur og strákar heldur skuli notuð orð eins og börn og krakkar vegna þess að þau vísi í kyn.

Þegar þáttastjórnandi spyr Jón hvað honum finnist persónulega um málið segir Jón að honum finnist að það þurfi að taka góða umræðu um þetta mál og að einhver þurfi að bera ábyrgð á stefnunni sem sett er hverju sinni.

Hann segir stöðuna vera þannig að enginn beri ábyrgð á þeirri stefnu sem sett er og því þurfi nauðsynlega að breyta.

Smellið hér til að hlusta á allt viðtalið.

Auglýsing

læk

Instagram