Leifur Dagfinnsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda kvikmyndafyrirtækisins Truenorth, segir að áform ríkisstjórnarinnar um að draga úr endurgreiðslum til kvikmyndagerðar séu illa ígrunduð.
Í þættinum Spjallið með Frosta Logasyni, bendir hann á að sjónvarpsþátturinn True Detective hafi fært íslenska hagkerfinu tekjur sem nema rúmlega 70 milljörðum króna.
11,5 milljarðar urðu að 70
Leifur útskýrir að framleiðendur True Detective hafi valið Ísland sem tökustað vegna 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.
Verkefnið skilaði 11,5 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri til landsins.
Með hliðsjón af svokallaðri Olsberg-skýrslu, sem mælir efnahagsleg áhrif slíkra verkefna, þá margfaldast þessi fjármunir innan hagkerfisins.
„Fyrir hvern sem ég ræður í tökuliðið skapast tvö önnur störf“
„Fyrir hverja krónu sem kemur inn í landið verða til 6,8 krónur,“ segir Leifur. Þetta þýðir að áhrif verkefnisins á hagkerfið námu yfir 70 milljörðum króna.
Tugir Íslendinga í vinnu og jákvæð áhrif á ferðaþjónustu
Leifur segir að um 600 Íslendingar hafi komið að verkefninu auk 50 útlendinga. Þeir sem vinna við tökur skapi einnig störf annars staðar í hagkerfinu.
„Fyrir hvern sem ég ræður í tökuliðið skapast tvö önnur störf,“ segir hann og bætir við að sjónvarpsverkefnin séu líka langtímaauglýsing fyrir Ísland. „Walter Mitty-myndin með Ben Stiller hefur verið auglýsing fyrir Ísland í 15–20 ár.“
Leifur segir einnig að ferðaþjónustan græði einnig, því með fjölgun ferðamanna aukast umsvif á hótelum, veitingastöðum og hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum.
„Þetta örvar allt kerfið og skilar sér í tekjum til ríkissjóðs,“ bætti Frosti við.
Ekki eingöngu fyrir útlendinga
Leifur bendir á að endurgreiðslukerfið sé ekki aðeins fyrir erlenda framleiðendur því íslensk verkefni njóti einnig góðs af.
Þetta hafi orðið stór þáttur í fjármögnun íslenskra kvikmynda og sjónvarpsþátta, sérstaklega í ljósi þess að Kvikmyndasjóður sé sveltur.
Með 35% endurgreiðslu geta íslenskir framleiðendur í raun fengið rúman þriðjung fjármögnunar sinnar í gegnum kerfið.
Misskilningur í umræðunni
Þrátt fyrir ótvíræð jákvæð áhrif segir Leifur að margir misskilji hvernig kerfið virkar. „Það þarf bara að upplýsa fólk betur,“ segir hann.
Áætlun um endurgreiðslur þurfi að fara inn í fjárlög sem kostnaðarliður, en í raun er enginn peningur greiddur fyrr en hann er kominn inn í landið.
„Ríkið greiðir ekki út fyrr en peningurinn er kominn. Það er ekkert verið að tapa neinu hér, þetta er hreinn ágóði,“ segir hann og kallar kerfið „skynsamlegt bæði fjárhagslega og samfélagslega.“
Leifur áður varað við fyrirhuguðum skerðingum
Leifur hefur áður skrifað grein og bendir þar á að tillögur um að lækka endurgreiðsluhlutfall úr 35% í 25%, eða jafnvel minna, myndu skaða samkeppnishæfni Íslands alvarlega.
Í greininni kemur fram að um 86% þeirra útgjalda sem renna til kvikmyndaverkefna á Íslandi myndu einfaldlega ekki eiga sér stað án endurgreiðslukerfisins.
„Endurgreiðslur ríkisins myndu vissulega minnka, en það yrði á kostnað íslenskra hagsmuna og tækifæra,“ segir Leifur.
Hann hvetur stjórnvöld til að standa með kvikmyndaiðnaðinum og tryggja áframhaldandi samkeppnishæfni, meðal annars með því að halda 35% endurgreiðslu í gildi fyrir öll verkefni.
Fáðu þér áskrift og sjáðu alla þætti á Brotkast í fullri lengd.