Samgönguráðherra Þýskalands íhugar að banna akstur einkabíla um helgar til að mæta loftslagsmarkmiðum

Reuters fréttastofan greinir frá því að þýski samgönguráðherrann Volker Wissing hafi fengið mikla mótspyrnu við tillögu sinni um að banna akstur einkabíla um helgar í sumar.

Þýska þjóðin hefur tekið mjög illa í tillöguna en ráðherrann segir hana nauðsynlega til að Þjóðverjar nái markmiðum sínum í loftslagsmálum, en þrátt fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda 2023 hafi verið sú minnsta sem þýska hagkerfið, sem er það stærsta í Evrópu, hefur séð í rúm 70 ár, þá telja stjórnvöld bílaflota sinn eiga langt í land með að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Frumvarpið hefur verið til umræðu í ríkisstjórninni mánuðum saman en ríkisstjórnarflokkarnir þrír deila hart um efnistök frumvarpsins og virðist ekkert samkomulag sjáanlegt í náinni framtíð. Andstæðingar frumvarpsins segja að ekki sé vilji hjá þýsku þjóðinni að settar séu á frekari takmarkanir í nafni umhverfismála.

Ráðherrann sagði að ríkisstjórnin hafi hingað til forðast svo viðamiklar aðgerðir þar sem það muni hafa mikil áhrif á daglegt líf fólksins í landinu en að ráðuneytið myndi neyðast til að setja slíkt bann í gildi ef ekki verður komið samkomulag um frumvarp hans fyrir miðjan júlí á þessu ári.

Hann segir einnig að slíkt bann um akstur einkabíla á laugardögum og sunnudögum myndi gilda um allt Þýskaland og um óákveðinn tíma.

Þýski fjármálaráðherrann, Christian Lindner, segist styðja við bakið á samgönguráðherra og segir lög sem fyrri ríkisstjórn setti á til að vernda umhverfið gæti fljótlega leitt til að slíkt ökubann yrði að veruleika.

Auglýsing

læk

Instagram