https://www.xxzza1.com

Sjö skotvopn haldlögð af tollinum: Aukið smygl vegna undirheima

Tollgæslan í Reykjavík hefur lagt hald á sjö skotvopn í fimm smyglmálum það sem af er ári. Þá voru einnig haldlagðar tvær eftirgerðir af skotvopnum í samtals tveimur málum. Þetta kemur fram í svari tollgæslunnar við fyrirspurn Nútímans.

„Þetta er mjög sniðug aðferð og sá sem fattaði upp á þessu er greinilega mikill hugsuður“

Þetta mun vera töluverð aukning frá því á síðasta ári en þá kom meðal annars fram í upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að hún hafi ekki orðið vör við mikið smygl á skotvopnum til landsins. Heimildarmenn Nútímans eru sammála um að þessar tölur frá yfirvöldum séu aðeins „toppurinn á ísjakanum“ – smygl á skotvopnum, og þá helst skammbyssum, sé reglulegt og er þá aðallega um að ræða smygl frá Austur-Evrópu til Íslands.

Smygl á skotvopnum þolinmæðisvinna

Blaðamaður Nútímans var staddur í Búdapest ekki fyrir svo löngu en þar kynnti hann sér meðal annars skotvopnamarkaðinn. Auðvelt er að verða sér úti um skotvopn í stórum borgum á við Búdapest og þeir sem hafa einbeittan brotavilja geta nokkuð auðveldlega smyglað skotvopni hingað til lands en ein þekktasta aðferðin við smyglið krefst þó þolinmæði.

Sú aðferð hefur stundum verið kölluð „Lyklakippubyssa“ en heimildarmaður Nútímans, sem af augljósum ástæðum vildi ekki láta nafns síns getið, fór í gegnum ferlið – allt frá því að skotvopnið er keypt í Austur-Evrópu og þar til skammbyssan er komin í hendur á glæpamönnum í undirheimum Reykjavíkur.

„Þetta er mjög sniðug aðferð og sá sem fattaði upp á þessu er greinilega mikill hugsuður,“ segir heimildarmaðurinn og hlær.

Lyklakippu-aðferðin vinsæl

„Þetta er gert þannig að skotvopn er keypt í Austur-Evrópu og oftast með aðstoð þeirra sem búa í Póllandi, Litháen, Serbíu eða Albaníu. Þetta eru svona þau helstu lönd þar sem aðgengi að þessum vopnum er mjög auðvelt. Skammbyssan er svo færð byssusmiði þarna úti en þeir eru nokkrir sem hægt er að hafa samband við. Þessi byssusmiður tekur svo skammbyssuna í sundur og það er alveg magnað hvað það er hægt að taka þessar skammbyssur mikið í sundur. Svo er tekinn pínkulítill bor og það er borað gat í alla þessa parta,“ segir heimildarmaðurinn sem heldur svo áfram að lýsa ferlinu.

„…þá voru ekki bara skotvopn til sölu heldur einnig stórir hnífar og piparúðar svo eitthvað sé nefnt.“

„En þá eru eflaust einhverjir að spyrja sig af hverju það er borað gat í þessa parta? Það er nefnilega snilldin á bakvið þetta. Svo kaupir þú bara lyklakippuhringi og kemur þeim í gegnum þessi göt. Þá ertu komin með eitthvað sem lítur bara út eins og lyklakippa. Fullt af lyklakippum í raun og veru. Þá kemur sá hluti smyglsins sem krefst mikillar þolinmæði. Þessar „lyklakippur“ eru svo póstlagðar til Íslands með löngu millibili frá nokkrum mismunandi stöðum og á nokkra mismunandi aðila. Með þessu móti er nær ómögulegt fyrir tollverði að átta sig á heildarmyndinni. Þegar allir partarnir, sem getur tekið allt frá þremur mánuðum og upp í ár, er komið til landsins að þá eru allavega tveir, sem ég þekki og eru vel kunnugir skotvopnum, sem taka við þeim og koma þeim aftur saman. Þá ertu kominn með vel fúnkerandi skammbyssu,“ segir heimildarmaðurinn.

Skammbyssur seldar í verslunum

Nútíminn greindi frá því núna í lok nóvember að átök í undirheimum Reykjavíkur virðast vera að harðna en þá hafði albönsk glæpaklíka auglýst eftir skotvopni en það var gert á samskiptamiðlinum Telegram. Fyrir nokkrum árum var þessi markaður miklu stærra en hann er í dag – þá voru ekki bara skotvopn til sölu heldur einnig stórir hnífar og piparúðar svo eitthvað sé nefnt. Átak lögreglunnar í þessum efnum virðist þó hafa skilað einhverjum árangri því töluvert erfiðara er í dag að kaupa þessi vopn. Það gæti útskýrt þessa fjölgun smyglmála hjá tollgæslunni – færri vopn til sölu gæti þýtt meira smygl.

Því ber þó að halda til haga að hægt er að kaupa kraftmiklar skammbyssur hér á landi með löglegum hætti en með einfaldri leit á veraldarvefnum er hægt að sjá þessi skotvopn til sölu í íslenskum verslunum. Þar býður ein netverslunin til dæmis upp á 9mm Glock á 850 þúsund krónur. Það er þó rúmum 800 þúsund krónum meira en þeir sem borga fyrir svipað skotvopn í Austur-Evrópu en þar fara skammbyssur á svo lítið sem tvö hundruð evrur eða tæpar þrjátíu þúsund krónur.

Auglýsing

læk

Instagram