1.800 manns vita ekki hvar þeir munu sitja á leiknum gegn Finnlandi

Miðar á leik Íslands og Finnlands fimmtudagskvöldið 6. október í undankeppninni fyrir HM í knattspyrnu karla seldust upp á tveimur klukkustundum í gær. Um þrjú þúsund miðar voru seldir en völlurinn tekur tæplega tíu þúsund manns í sæti.

Áður var búið að selja 1.800 mótsmiða en þeir gilda á alla heimaleiki Íslands í undankeppninni. Þau sem keyptu mótsmiðana fá aftur á móti ekki að vita í hvaða hólfi og sæti þau sitja fyrr en um miðjan september. Sem er heldur óheppilegt, vilji þau sem kaupa miða í almennri sölu kaupa miða nálægt þeim.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir í samtali við Nútímann að nokkurn tíma taki að raða þeim sem keyptu mótsmiða niður í sæti. Þá eru fáir við störf á skrifstofunni þessa dagana og því liggja upplýsingarnar ekki fyrir. Hún segir einnig að áhersla sé lögð á að tryggja 100% nýtingu á vellinum.

Miðasala á leik Íslands og Tyrklands hefst kl. 12 á föstudaginn og verður svipaður fjöldi miða í sölu þá. Stuðningsmenn Finna nýttu öll sætin sem þeim standa til boða en ekki liggur fyrir hvort tyrknesku stuðningsmennirnir geri slíkt hið sama. Það verður þó að teljast heldur ólíklegt þar sem heldur lengra er að fara fyrir þá.

Í heildina eru því seldir um 5.800 miðar en völlurinn tekur tæplega tíu þúsund manns í sæti. Aðrir miðar fara til samstarfsaðila KSÍ, UEFA, FIFA, fjölmiðla, sjónvarpsrétthafa og dómara. Boðsmiðar eru 500 talsins, þar með taldir miðar til dómara og skírteinishafa.

Auglýsing

læk

Instagram