2.700 manns hafa styrkt Reykjavík Media um 100.000 evrur

Um 2.700 manns hafa lagt til 100.000 evrur, um 14 milljónir króna, í hópfjármögnun fjölmiðilsins Reykjavík Media þegar þetta er skrifað. Söfnunin hófst í byrjun apríl í kjölfarið á sérstökum Kastljósþætti um aflandsfélög íslenskra stjórnmálamanna sem fyrirtækið vann í samstarfi við RÚV.

Takmarkið var að safna 40 þúsund evrum eða um 5,6 milljónum króna en söfnuninni lýkur á miðnætti.

Blaðamennirnir Jóhannes Kr. Kristjánsson og Aðalsteinn Kjartansson eru á bakvið Reykjavík Media. Fyrirtækið heldur úti vefmiðli á slóðinni RME.is þar sem stendur til að birta myndbönd, rannsóknargreinar, viðtöl og annað áhugavert efni um fólkið í samfélaginu.

„Í samstarfi við aðra fjölmiðla og samtök, eins og International Consortium of Investigative Journalists og Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi, munum við vinna fréttirnar okkar fyrir þann vettvang sem hentar þeim best hverju sinni,“ segir í texta sem fylgir söfnuninni á Karolina Fund.

„Hjá okkur er það efnið sem skiptir máli og við veljum leiðir til að miðla því eftir því hvernig það er sem skýrast fyrir lesendur okkar. Við látum ekki sérhagsmuni eða þrýsting valdhafa hafa áhrif á fréttirnar okkar heldur höldum trú okkar og tryggð við lesendur og áhorfendur; hópinn sem Reykjavik Media starfar fyrst og fremst fyrir.“

Auglýsing

læk

Instagram