Aldrei færri sólskinsstundir og aldrei meiri úrkoma í Reykjavík fyrstu 14 vikur sumars

Mikil umskipti urðu í tíðarfari eftir sumardaginn fyrsta með óvenjulegu sólarleysi um suðvestanvert landið og hlýindum á Austfjörðum. Aldrei hafa mælst færri sólarstundir í Reykjavík fyrstu 14 vikur sumars og úrkoman hefur aldrei verið meiri. Þetta kemur fram á vefsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings þar sem hann fer yfir fyrstu 14 vikur sumarsins.

Sumarmisserið er venjulega 26 vikna langt en þetta árið er sumarauki þannig að ein vika bætist við sumarið og er það núlíðandi vika þetta árið að sögn Trausta. Sumaraukinn hefur þó ekkert með veðrið að gera heldur er hlutverk vikunnar að sjá til þess að misræmi milli tímatals og sólargangs verði sem minnst.

Trausti segir mikil umskipti hafa orðið í tíð rétt eftir sumardaginn fyrsta sem hefur haldist svipuð síðan þá og lýsir sér í óvenjulegu sólarleysi um landið suðvestanvert með miklum úrkomum og svölu veðri og hlýindum norðaustan – og austanlands.

Hann segir óvenjuleg hlýindi hafa verið á Austfjörðum en meðalhiti fyrstu 14 vikna sumars á Daltanga var 7,5 stig sem er 0,5 stigum hærra en það hlýjasta til þessa þar um slóðir, að minnsta kosti frá árinu 1949 að telja. Í Reykjavík hafi aftur á móti verið svalt en meðalhiti þar fyrstu 14 vikur sumars var aðeins 7,7 stig, ómarktækt minna en á sama tíma 1913,  1914 og 1984.

Mælst hafa rúmlega 300 mm af úrkomu í Reykjavík fyrstu vikurnar fjórtán sem er það mesta sem vitað er um sömu vikur, næstu tölur eru um 250 mm árin 2014 og 1887. Svipaða sögu er að segja um sólarleysið en aðeins mældust 343,7 sólskinsstundir í Reykjavík sem er að minnsta sem vitað er um samkvæmt Traust en ómarktækt minna en á sama tíma árin 1913, 1914 og 1984.

Trausti endar pistil sinn á því að líta fram í tímann og velta fyrir sér veðurfarinu það sem eftir er af sumri.

„Góðu tíðindin eru þau að svo virðist sem heldur hlýrri dagar séu framundan (þó varla þurrir) – hvað sem hlýjan svo endist er annað mál. Langtímareikningar sýna engar marktækar breytingar á veðurlagi á næstunni – og þó lengri framtíð sé auðvitað fullkomlega frjáls er það samt þannig að júlí og ágúst spyrða sig oftar saman hvað veðurlag varðar heldur en aðrir almanaksmánuðir – þeir einu reyndar sem sýna einhvern marktækan samvinnuvott.“

Auglýsing

læk

Instagram