Appelsínugul viðvörun – Dagurinn í dag hentar ekki til ferðalaga!

Með deginum má búast við austlægri vindátt, hvassviðri eða stormi með talsverðri rigningu, en jafnvel slydda á heiðum norðantil á landinu.

„Undanfarna daga hefur verið nokkur óvissa með dýpt lægðarinnar og einnig hvaða leið hún muni fara yfir landið, en þessir tveir þættir ráða mestu um hversu slæmt veðrið verður. Í gærmorgun versnuðu spárnar og þá voru gefnar út gular viðvaranir fyrir veður dagsins. Nýjustu spár í nótt og þær sem bárust nú snemma í morgun hafa síðan enn versnað og því er unnið að því að færa viðvaranir uppá appelsínugult stig á þeim svæðum þar sem veðrið verður verst samkvæmt spám,“ segir í hugleiðingum veðurfræðinga á vedur.is

„Skemmst er frá því að segja að dagurinn í dag hentar ekki til ferðalaga og vert er að huga að því að tryggja lausamuni svo þeir fjúki ekki.“

„Það fer síðan að draga úr vindi og úrkomu á vestanverðu landinu í kvöld, en austantil í nótt og fyrramálið. Þegar kemur fram á morgundaginn má búast við vestlægum kalda eða strekkingi og skúrir eða slydduél í flestum landshlutum. Hitatölurnar stefna niðurávið.“

Auglýsing

læk

Instagram