Aldrei stöðvað jafn ölvaðan mann undir stýri: „Vonandi sjáum við aldrei aftur svona tölu“

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði fyrr í vikunni ölvaðan mann undir stýri eftir að tilkynnt hafði verið um rásandi aksturslag bifreiðar um hádegisbilið þann dag. Vakthafandi lögreglumenn höfðu aldrei séð aðra eins tölu á áfengismælinum þegar hann var látinn blása í áfengismæli.

Þegar lögreglumenn höfðu uppi á manninum kom fljótlega í ljós að ökumaðurinn var í alls engu standi til þess að keyra bíl. Í tilkynningu á Facebook-síðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hann hafi í raun ekki verið í standi til þess að vera á fótum.

„Honum var kynnt að hann væri handtekinn grunaður um ölvun við akstur og var hann beðinn um að blása í áfengismæli og má sjá útkomuna á meðfylgjandi ljósmynd. Vakthafandi lögreglumenn, sem nokkrir eiga tugi ára að baki í lögreglu, höfðu aldrei séð aðra eins tölu á áfengismælinum og vonandi sjáum við aldrei aftur svona tölu. Ökumaður þessi á von á ansi langri ökuleyfissviptingu og svimandi hárri sekt,“ segir í tilkynningunni en maðurinn mældist með 4,31 prómill.

Núverandi viðmið er 0,5 prómill en það mun fljótlega breytast í 0,2 prómill þegar ný umferðarlög ganga í gegn.

Auglýsing

læk

Instagram