today-is-a-good-day

Ástæðan fyrir því að Conor mætir Cerrone líklega ekki

Fyrir skömmu sögðum við frá því að það væru miklar líkur á að UFC-bardagamaðurinn Conor McGregor myndi mæta Donald Cerrone í búrinu í júlí, en nú virðist sem bardaginn sé ekki á dagskrá, ef marka má orð Dana White, forseta UFC, og Joe Rogan, lýsanda UFC.

Um helgina sagði White að bardaginn væri ekki næstum því umsaminn og að bardagasamtökin væru að leita að nýjum andstæðingi fyrir Cerrone. Hann bætti við að McGregor snúi jafnvel ekki aftur í búrið fyrr en í haust.

Í gær ræddi Joe Rogan möguleikann á þessum bardaga í hlaðvarsþætti sínum, The Joe Rogan Experience, og sagði að UFC hafi verið að reyna að setja bardagann upp sem næstsíðasta bardaga kvöldsins, en að McGregor sé ekki sáttur við það og vilji bara berjast ef það eru miklir peningar í húfi. Yfirleitt fá þeir sem berjast í aðalbardaga kvöldsins mest borgað.

Ástæðan fyrir því að UFC vildi ekki hafa bardagann milli McGregor og Cerrone aðalbardaga kvöldins er sú að UFC vill hafa titilbardaga sem aðalbardaga kvöldins ef þeir eru að selja áhorf á bardagakvöldið. Einu sinni í mánuði heldur UFC bardagakvöld þar sem stærstu stjörnurnar stíga inn í búrið og þá er rukkað fyrir hvert áhorf, í stað þess að bardagarnir séu sýndir í sjónvarpi. Hvorki Cerrone né McGregor eru með belti, þannig að bardaginn á milli þeirra yrði ekki um titil.

Það er mjög sjaldgæft að þessi stóru bardagakvöld endi ekki á titilbardaga, en það gerðist síðast á UFC 234 þann 10. febrúar síðastliðinn, þegar meistarinn meiddist og varð að aflýsa bardaganum daginn sem hann átti að eiga sér stað. UFC hefur ekki sett saman bardagakvöld án titilbardaga þar sem rukkað er fyrir áhorf  síðan 20. ágúst 2016, þegar Nate Diaz og Conor McGregor mættust í annað sinn. Þrátt fyrir að hafa skort titilbardaga seldust áhorf á það kvöld gríðarlega vel.

Rogan telur að McGregor hafi bara áhuga á stærstu bardögum sem hann getur mögulega fengið á þessu stigi ferilsins, þar sem hann er svo fjáður og frægur, og þess vegna vilji hann bara berjast ef bardaginn er aðalbardagi kvöldsins. McGregor hefur ekki barist í öðru en aðalbardaga kvöldsins síðan hann rotaði Dustin Poirier á UFC 178 í september 2014.

Auglýsing

læk

Instagram