Bára boðar til veislu í kvöld þegar upptökunum verður eytt: „Við hvetjum þó fólk til að reyna að vera meira sexý en í fyrra“

Líkt og við fjölluðum um hér á Nútímanum í gær hyggst Bára Halldórsdóttir eyða Klaustursupptökunum með mikilli viðhöfn. Nú hefur verið stofnaður viðburður á Facebook þar sem kemur fram að hún mun eyða þeim á Gauknum í kvöld upp úr klukkan 21.

Á Facebook-síðu viðburðarins kemur einnig fram að:

– Lögfræðingar Báru munu sjá um að skrásetja viðburðinn
– Halldór Auðar Svansson flytur opnunarávarp fyrir hönd stuðningshópsins Takk Bára
– Valdir kaflar upptökunnar verða kvaddir sérstaklega
– Upptökum verður svo eytt með viðhöfn og í kjölfarið er fólki frjálst að grípa í míkrófóninn, fyrst til að segja eitthvað uppbyggilegt og svo breytist Gaukurinn í allsherjar karaoke-partý.

Það verður ókeypis inn og tilboð verður á drykkjum. Það má koma með eigin upptökutæki og vera í dulargervi. „Við hvetjum þó fólk til að reyna að vera meira sexý en í fyrra,“ stendur þá.

Bára Halldórsdóttir var dæmd til þess að eyða upptökum sem hún tók af sex þingmönnum á Klaustri bar á síðasta ári. Persónuvernd varð ekki við kröfu þingmannanna um að Bára þyrfti að greiða sekt en í nýuppkveðnum úrskurði segir að Bára hafi brotið persónuverndarlög og henni hafi verið gert að eyða upptökunum.

Auglýsing

læk

Instagram