Bjarni var með dóttur sinni á gjörgæslu í hálfan mánuð: „Kærasti dóttur minnar réðst á hana og stakk fimm sinnum“

„Menn mega lemja mig og gera allan andskotann við mig en ekki börnin mín,“ segir Bjarni Ákason viðskiptamaður en hann er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Það fer Bjarni meðal annars yfir erfiðan tíma í lífi sínu – þegar hann hélt í hendi dóttur sinnar á gjörgæsludeild Landspítalans í rúman hálfan mánuð.

„Við erum bara svo mismunandi og viljum fara mismunandi leiðir að okkar markmiðum en við eigum alltaf að setja okkur markmið og reyna að ná þeim.“

„Kærasti dóttur minnar réðst á hana og stakk hana fimm sinnum. Í magann og andlitið. Það var erfiður tími – þegar þú ert á gjörgæsludeildinni og heldur í hendina á dóttur þinni. Þarna var maður meira og minna í hálfan mánuð. Við fjölskyldan höfum lent í alls kyns,“ segir Bjarni í þessum einlæga og opinskáa viðtali.

Seldi Apple-umboðið á Íslandi tvisvar sinnum

Óhætt er að segja að Bjarni hafi marga fjöruna sopið í íslensku viðskiptalífi en hann er um þessar mundir að ganga frá sölu á fyrirtæki sínu Bakó-Ísberg sem hann keypti árið 2019 eftir að hafa selt Apple umboðið á Íslandi í annað sinn. Á síðasta ári fagnaði Bjarni endalegri niðurstöðu í skattrannsóknarmáli sem tók næstum 15 ár af lífi hans, en hann var á endanum sýknaður af öllum ásökunum sem Bjarni segir að hafi allan tíman verið ein tilefnislaus þvæla. Bjarni þekkir líka raunir vímuefnavandans af eigin raun, en í viðtalinu segir hann meðal annars frá því hvernig fjölskylda hans hefur þurft að glíma við fíknivanda stjúpsonar Bjarna.

Þá segir Bjarni einnig frá því þegar tveir menn réðust á hann en árásin tengdist Bjarna ekki beint heldur fíknivanda stjúpsonarins. Bjarni er þó þakklátur fyrir það að kærasti dóttur sinnar hafi farið í meðferð og tekið á sínum málum. Frosti tók undir það og benti á þá ísköldu staðreynd að um það bil hundrað einstaklingar eru að deyja ár hvert úr fíknivanda hér á landi.

Engin kippir sér upp við andlát unga fólksins

„Og við erum í raun og veru ekki að gera neitt og erum ekki að kippa okkur upp við það þegar þetta unga fólk er að detta niður,“ segir Frosti.

„Það er bara hræðilegt að sjá þetta. Eins og með minn eldri dreng, hann er nýorðinn sextán ára og það eru einhverjir tveir eða þrír á sama aldri og hann sem hafa látist. Maður bara spyr sig hvernig getur þetta gerst. Það eru engin úrræði í þessu og svo er verið að setja þessa ungu menn á Litla Hraun þar sem þeir eiga ekkert heima. Það á frekar að reyna að hjálpa þeim og eins og hann sagði fangelsismálastjóri – afhverju ættu þeir að vera með fólk sem væri orðið svo veikt að það væri komið með framheilaskaða,“ segir Bjarni.

„Hvað á ungt fólk að gera til að farnast vel í lífinu?“ spyr Frosti og Bjarni var ekki lengi að svara því.

„Það á bara fyrst og fremst að ákveða það sjálft hvaða leið það vill fara í lífinu. Við erum bara svo mismunandi og viljum fara mismunandi leiðir að okkar markmiðum en við eigum alltaf að setja okkur markmið og reyna að ná þeim. Við kannski náum þeim ekki strax en það tekst með aga og vinnusemi.“

Þurfti að redda sér sjálfur

Ólíkt uppeldi barna í dag að þá fékk Bjarni ekki pening hjá foreldrum sínum þegar hann var barn.

„Nei maður fékk ekki pening hjá mömmu og pabba. Ég byrjaði sem krakki að selja merki á sunnudögum fyrir Slysavarnarfélagið og þar fékk maður smá pening. Svo var ég að bera út blöð og var kannski ekki alveg réttum megin – fékk litlu blöðin og þá þurfti að eiga gott hjól. Svo hjólaði maður um Vogana með Tímann og Þjóðviljann og Alþýðublaðið sem var flókinn útburður en maður þurfti að redda sér. Maður þurfti að hafa tekjur. Svo þegar maður eldist og fór í menntaskóla þá vann maður allt sumarið, páska og jól til þess að eiga pening.“

„Þetta mótar þig?“ spurði Frosti.

„Það er svolítið þannig. Ég er þakklátur fyrir þetta uppeldi sem ég fékk, rétt og rangt og vertu sjálfum þér samkvæmur. Það var mjög gott veganesti og mikilvægt. Svo er maður þakklátur fyrir fjölskylduna í dag – að hafa hana. Það eru ekkert allir sem hafa það.“

Auglýsing

læk

Instagram