today-is-a-good-day

Bjóða upp á námskeið fyrir ungar konur í tónlist

101derland og Les Fréres Stefson munu í næsta mánuði bjóða upp á ókeypis námskeið fyrir ungar tónlistarkonur á aldrinum 16 til 20 ára þar sem þeim verður kennd helstu undirstöðuatriði við lagasmíðar.

Námskeiðið verður haldið í 18. febrúar til 18. mars 2019 í höfuðstöðvum 101derland að Hverfisgötu 105. Kennt verður þrisvar sinnum í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga, og stendur hver lota yfir í 3 klukkustundir.

„Námskeiðið undirbýr þær fyrir tónlistarferil þeirra og fá þær aðstöðu í 101derland hljóðverinu þar sem þeim verður kennd undirstöðuatriði í Ableton live, helstu tækniatriði við hljóðupptökur verða kynnt, veitt aðstoð við tónlistarsköpun auk þess sem þær fá innsýn í tónlistarbransann frá faglegu sjónarhorni. Megin markmið námskeiðsins eru kennsla á sjálfstæðum vinnubrögðum við lagasmíðar sem mun án efa nýtast þeim við að koma sér á framfæri bæði hérlendis og erlendis,“ segir í tilkynningu.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, Logi Pedro Stefánsson og Jófríður Ákadóttir (JFDR) verða aðal leiðbeinendur námskeiðsins en aðrir listamenn sem vinna undir hatti 101derland koma líka við sögu, til dæmis Jóhann Kristófer Stefánsson (Joey Christ), rappararnir Birnir og Flóni, Young Karin og Sturla Atlas.

Námskeiðið er ókeypis og verður pláss fyrir 10 stelpur á aldrinum 16-20 ára. Hægt er að sækja um með því að senda póst á info@101derland.com merkt: SNÆLDA – umsókn. Umsókninni skal fylgja nafn, kennitala, reynsla í tónlist, helstu áhrifavaldar í tónlist og linkur á tónlist ef til er.

Auglýsing

læk

Instagram