Börn og unglingar bíða í hópum fyrir utan heimili Sonju í Áttunni: „Reyni alltaf að taka þeim fagnandi“

Sonja Rut Valdin skaust hratt upp á stjörnuhimininn þegar lagið NEINEI með Áttunni sló rækilega í gegn. Búið er að horfa á myndbandið við lagið rúmlega 800 þúsund sinnum á Youtube og sjálf er Sonja með tæplega 13 þúsund fylgjendur á Instagram.

Sonja segir í Fréttablaðinu að það sé gaman að vera þekkt en að það geti á sama tíma verið óþægilegt. „Ég finn mikið fyrir því að fólk starir á mig,“ segir hún í viðtalinu.

Það gerir mig meðvitaða um hvort ég sé nógu vel tilhöfð eða sé að gera eins vel og ég get. Ég get ekki lengur gert allt eins og ég vil, alls staðar.

Hún segir í Fréttablaðinu að börn og unglingar bíði í hópum fyrir utan heimili hennar, dingli bjöllunni og hringi jafnvel í hana. „Mér finnst erfitt að ýta börnum frá mér því þau eru svo hjartahrein og einlæg. Því reyni ég alltaf að taka þeim fagnandi og vera hress til að særa engan,“ segir hún.

„Fólk virðist þó ekki almennt skilja að ég er manneskja í þörf fyrir að lifa lífi mínu í friði þegar ég er heima og ekki alltaf í stuði til að spjalla eða láta taka myndir af mér með aðdáendum. Krakkar í dag eru líka svo ákveðnir og beinlínis segja manni að vera með þeim á mynd því að ég hafi valið að verða fræg.“

Sonja er 21 árs og segir að fólk á sínum aldri hlaupi á eftir henni úti á lífinu. „Ýmist til að hrósa mér eða gera lítið úr mér. Ég held að þeim líði eins og þau þekki mig,“ segir hún.

„Ég er beðin um að gera eitthvað fyrir Snappið þeirra en vitaskuld vil ég það ekki alltaf því stundum vil ég eingöngu njóta lífsins með vinum mínum. Ég á mitt líf þótt ég sé orðin þekkt.“

Aðspurð segist Sonja telja að frægir fái í dag minni frið frá aðdáendum en áður fyrr. „Nú snýst allt um samfélagsmiðla og að grípa andartakið. Ef fólk sér mig í næsta bíl í umferðinni á ég að gjöra svo vel að skrúfa niður rúðuna, stoppa bílinn og vera til í mynd og spjall,“ segir Sonja í Fréttablaðinu.

„Ég tek það þó ekki nærri mér því ég skil þetta að vissu leyti og hef sjálf upplifað þennan spenning þegar fræg manneskja sem ég hef fylgst með hefur óvænt birst í lífi mínu. Tækifærin sem maður fær í gegnum samfélagsmiðla eru hins vegar ótrúlega skemmtileg og mér líður oft eins og ég geti gert allt sem mig langar til. Það er góð tilfinning.“

Smelltu hér til að lesa viðtalið við Sonju á Vísi.

Áttan sendi nýlega frá sér lagið Ekki seena sem er komið yfir 150 þúsund áhorf

Auglýsing

læk

Instagram