Brynjar Níelsson: „Frekjunni finnst hún undantekningarlaust betri og gáfaðri en annað fólk“

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og fyrrverandi þingmaður, gerir „Frekjuna“ að umtalsefni í færslu á Facebook í dag. Færsluna skrifaði hann meðan hann liggur sjálfur heima fárveikur með flensu og „nánast með óráði.“

Til að útskýra betur hvað Brynjar á við með týpunni „Frekjunni“ skulum við einfaldlega gefa honum orðið:

„Freki karlinn, sem er nú ekki síður kelling, hefur verið áhugamál mitt lengi. Nú er svo komið að ég er að vinna að ritgerð um Frekjuna með stórum staf, einkum þá sem eru stíflaðir úr frekju. Á ég von á því að úr verði meistararitgerð í félagsvísindum. Hér kemur útdráttur um helstu niðurstöður:

Frekjan þolir ekki andstæðar skoðanir. Þess vegna er Frekjan alltaf reið og þeir sem eru ekki sömu skoðunar eru fávitar, í besta falli hálfvitar og í versta falli hægri öfgamenn. Svo eru andstæðingarnir auðvitað allir spilltir og óheiðarlegir, það þarf ekki að spyrja að því.

Frekjunni finnst hún undantekningarlaust betri og gáfaðri en annað fólk. Áberandi hjá Frekjunni er stjórnlyndi, sem segir sig sjálft, auk hvers kyns dyggðaskreytingar og andúð á þeim sem hafa hafa efnast umfram meðalmanninn, hvort sem það er fyrir heppni eða vegna dugnaðar og áræðni.“

Frekjurnar safnast mikil til í sömu stjórnmálaflokkana. Hlutskipti þeirra er iðulega að vera í stjórnarandstöðu, en þó ekki algilt. Þess vegna finnst Frekjunni kjósendur heimskir og lýðræðið gallað. Frekjurnar safnast einnig saman á sömu fjölmiðlana og halda því fram að þeir séu faglegir fjölmiðlamenn en eru bara í raun að stunda hefðbundna pólitík. Þar að auki finnst þeim að þeir eigi að vera undanþegnir lögum að mestu því þeir séu svo mikilvægir.“

Frekjurnar yfirtaka samfélagsmiðlana og hrekja alla andstæðinga út í horn með ofstækinu. Allt reynt til að skapa upplausn og glundroða. Reynt með öllum tiltækum ráðum að útiloka andstæðinginn og leggja jafnvel á sig að safna undirskriftum hjá almenningi í þeim tilgangi.“

Auglýsing

læk

Instagram