Conor McGregor hnyklar vöðvana framan í UFC

Bardagakappinn Conor McGregor varpaði sprengju inn í heim blandaðra bardagalista á þriðjudag þegar hann sagðist hafa ákveðið að setjast í helgan stein. Conor er aðeins 27 ára gamall, ríkjandi fjaðurvigarmeistari UFC-bardagasambandsins og umtalaðasti bardagakappi heims um þessar mundir.

Í kjölfarið veltu allir sem hafa minnsta áhuga á blönduðum bardagalistum fyrir sér hvað bjó að baki tístinu; er honum alvara? Er hann alveg hættur að berjast? Hvað er hann að gera á Íslandi?

McGregor kom nefnilega til landsins á mánudag og æfir nú með keppnisliði Mjölnis. Gunnar Nelson er að undirbúa sig fyrir næsta bardaga en hann mætir Albert Tumenov í Rotterdam sunnudaginn 8. maí.

Ariel Helwani er mikilsvirtur spekingur í heimi blandaðra bardagalista og í gær virtist hann sannfærður um að tíst Conors væri ekki gabb, grín eða eitthvað í þeim dúr. Hann vissi þó ekki hvað bjó að baki.

Í dag virðast flestir vera sammála um að Conor sé að hnykla vöðvana framan í UFC-bardagasambandinu en hann er búinn að vera andlit sambandsins undanfarin misseri sem vinsælasti íþróttamaðurinn og einn sá besti. Þetta er einhvers konar powerplay.

Flestir eru sammála um eitt: Conor McGregor er ekki hættur að slást. Hann er ekki sestur í helgan stein. Hann virðist hins vegar ekki vera ánægður með laun eða ákvarðanir UFC — eða hvoru tveggja.

Það sem er búið að gerast eftir að Conor birti tístið er að UFC hefur hætt við bardaga hans á UFC 200 bardagakvöldinu í sumar. Þar átti hann að mæta Nate Diaz á ný en Diaz þessi sigraði Conor eftirminnilega í mars (og segist á Twitter einnig hafa sest í helgan stein, eftir að Conor birti tístið sitt).

Allir vilja vita hvað gerist næst en það kemur ekki í ljós fyrr en Conor ákveður að tala við fjölmiðla. Eina sem hann hefur látið hafa eftir sér köld kveðja á vef MMA frétta: „No, I’m retired. Fuck interviews.“

Þangað til Conor talar — og hann mun tala — veltir fólk fyrir sér hvað gerðist áður en hann birti tístið örlagaríka. Hann átti að vera á leiðinni til Las Vegas að kynna UFC 200 en kom í staðinn til Íslands. Af hverju? Eftir því sem Nútíminn kemst næst gætu ástæðurnar verið ein eða fleiri:

  • Conor vildi fá meira borgað fyrir UFC 200. Sumir segja 10 milljónir dala, sem UFC hafnaði.
  • UFC hugðist hafa annan stóran bardaga á UFC 200. Bardaginn hefði verið á eftir bardaga Conor og Diaz. Þetta myndi okkar maður ekki sætta sig við.
  • Conor er búinn að fá nóg af tímafrekum kröfum UFC varðandi fjölmiðla og kynningar á bardögum sínum.
  • Conor er í alvöru hættur og ætlar að klára píparanámið.

Síðasta ástæðan er grín. En hinar þrjár eru mögulegar. Við verðum hins vegar í myrkrinu þangað til Conor rýfur þögnina. Þangað til heldur hann áfram að svitna í Mjölni með Gunnari, vini sínum.

UFC hefur oft verið gagnrýnt fyrir að borga bardagamönnum illa. Conor hefur ekki þurft að kvarta yfir því síðustu misseri en kannski vill hann stærri bita af kökunni, sem stækkar stöðugt fyrir hans tilstilli.

Kannski.

Hvað sem það er, þá bíður heimurinn spenntur eftir næstu skrefum Conors McGregor.

Auglýsing

læk

Instagram